154. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2023.

Störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Herra forseti. Það eru h-in tvö; heilbrigðisþjónusta og heimilisbókhaldið, sem eru í brennidepli hjá okkur í Samfylkingunni í haust. Á morgun fer fram sérstök umræða hér í þingsal að frumkvæði hv. þm. Kristrúnar Frostadóttur um hjúkrunarrými og heimahjúkrun og á næstu dögum munum við svo flytja þingmál um að öllum verði tryggður fastur tengiliður í heilbrigðiskerfinu óháð búsetu. Við munum líka kynna tillögur um hvernig megi nýta fjármagn í kerfinu betur, hvernig megi styrkja stoðþjónustu og tryggja að heilbrigðisstarfsfólk hafi meiri tíma með sjúklingnum. Hér búum við að því að hafa haldið tugi funda um heilbrigðismál undanfarna mánuði með fólki um allt land.

Svo er það heimilisbókhaldið sem ég nefndi, heimilisbókhaldið hjá fólkinu í landinu. Við höldum auðvitað áfram að kalla eftir afgerandi aðgerðum til að verja heimilin fyrir verðbólgu og vaxtahækkunum en þær þarf að fjármagna með auknu aðhaldi á tekjuhlið ríkisfjármálanna. Við afgreiðslu síðustu fjárlaga lögðum við í Samfylkingunni til og fengum samþykkt að vaxtabætur voru hækkaðar og víkkaðar út til 4.000 heimila sem ellegar hefðu engan stuðning fengið. Samkvæmt uppfærðum tölum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu sem mér bárust í morgun voru það tæplega 7.000 heimili sem nutu góðs af þessari breytingartillögu Samfylkingarinnar og meðalábati hvers heimilis var meira en 100.000 kr., mestur hjá tekjulægstu heimilunum og hjá yngri hópum heimila með þunga greiðslubyrði. Þetta eru gleðilegar fréttir. Þetta skiptir máli og ég trúi ekki öðru en að hér á Alþingi geti náðst samstaða um að halda áfram á þessari braut með sambærilegri breytingu á fjárlagabandormi vegna ársins 2024.