154. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2023.

ættliðaskipti og nýliðun í landbúnaðarrekstri.

52. mál
[15:50]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir framsöguna þar sem hann mælti fyrir tillögu um ættliðaskipti og nýliðun í landbúnaðarrekstri. Mér finnst þessi tillaga allrar athygli verð og langar að spyrja aðeins nánar út í í fyrsta lagi hvort skattaumhverfið vinni gegn þessum ættliðaskiptum núna, hvort það séu sömu kröfur til skattgreiðslna við ættliðaskipti í landbúnaði og bara við hverja aðra sölu fasteigna. Ég vildi fá það aðeins fram hjá þingmanninum.

Síðan langaði mig að velta því upp hvernig afmörkunin á búrekstri er, af því að þar sem ég þekki til þar sem er fjárfest mikið í framleiðslutækjunum, eins og í mjólkurframleiðslunni, þá eru þetta gífurleg verðmæti sem þurfa að flytjast á milli kynslóða. Þetta er ekki einfalt. En það sama á við t.d. í ýmiss konar ferðaþjónustu í dreifbýli, ég tala nú ekki um þar sem ferðaþjónustan er enn árstíðabundin, þar reynist þessi flutningur á milli kynslóða mjög erfiður. En hann er líka oft og tíðum bundinn tiltekinni jörð og þeim náttúrugæðum sem jörðin býr yfir.

Eins sé ég þetta með jarðirnar; þar sem er að byggjast upp mikill skógur þá verður dýrt að flytja hann á milli kynslóða og þau verðmæti sem þar eru. En á sama hátt er mikilvægt að fólkið sem vill búa á jörðunum og þekkir aðstæðurnar þar, hefur alist upp við þær, geti haldið því áfram. Mig langar bara að heyra hvað hv. þingmaður hefur um þetta þrennt að segja.