154. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2023.

ættliðaskipti og nýliðun í landbúnaðarrekstri.

52. mál
[15:54]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni svarið. Ef ég skil þingmanninn rétt er það þannig núna að það eru beinlínis hindranir sem standa í vegi fyrir því að ættliðaskipti geti gengið fyrir sig á einfaldan hátt, þar sem búrekstur er oft á tíðum þannig að innkoma er stöðug en ekki er mikið afgangs. Því getur verið afskaplega erfitt að greiða fyrir þennan rekstur í einu lagi á einu ári og mjög mikilvægt að þetta verði skoðað nánar. Ef ég man rétt var ákveðinn sveigjanleiki til staðar áður fyrr. Hins vegar skil ég þingmanninn þannig að tillagan sé í rauninni bundin við rekstur á bújörðum þar sem markmiðið er matvælaframleiðsla og einkum sé verið að horfa á þann þátt. Það er ekkert við það að athuga en að mínu viti gæti alveg verið ástæða til að víkka þessa athugun út þannig að hún næði líka til annars rekstrar í dreifbýli sem er á einhvern hátt bundinn við landið þar sem reksturinn fer fram.