154. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2023.

ættliðaskipti og nýliðun í landbúnaðarrekstri.

52. mál
[16:08]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Mér finnst umræða um kerfi alltaf gríðarlega áhugaverð og ég heyri það sem hv. þm. Þórarinn Ingi Pétursson segir hérna og er alveg hjartanlega sammála. Þetta er það sem sést mjög augljóslega á þessum vettvangi þegar grannt er skoðað og ekki einu sinni grannt, bara þegar rétt er verið að kíkja á stöðuna í landbúnaðinum þá kemur strax í ljós að það er svo margt sem er ekki að ganga upp á réttan hátt. Það eru alls konar púsluspil og plástrar hér og þar sem hafa verið settir á á undanförnum árum og áratugum til að reyna að halda kerfinu gangandi sem var upprunalega sett fram. En það er vandinn. Það má aldrei fara og grafa og finna rót vandans heldur verður alltaf að skera og splæsa og setja nýja grein og reyna að halda í rauninni trénu lifandi sem ætti að vera löngu búið að fella og hugsa þetta aðeins upp á nýtt. Það er svo margt sem er búið að breytast frá því að landbúnaðarkerfið, styrkjadótið og allt þetta og uppgræðslan, landgræðslan og allt þetta sem fylgir var sett á fót, að forsendurnar fyrir því að hafa kerfið eins og það er eru bara horfnar.

Þetta er svipað eins og þingið, það er byggt á ákveðnum hefðum, ákveðnu fyrirkomulagi sem átti við þá en á ekki endilega við í dag á tölvuöld þar sem samskipti eru allt öðruvísi. Umsagnarferli þingmála á tölvuöld — það er bara himinn og haf á milli þess hvernig það var og hvernig það er en samt erum við einhvern veginn að starfa á þann hátt eins og við séum að vesenast með bréfpóst enn þá. Við ættum í rauninni, ef við værum að hugsa um það hvernig staðan er núna og hvernig við getum gert hlutina á skilvirkan hátt núna miðað við öll þau tól og tæki sem við höfum okkur til aðstoðar, þá myndum við hugsa og gera störf þingsins allt, allt öðruvísi.

Það nákvæmlega sama á við í sjávarútvegi, í landbúnaði, úti um allt. En að hluta til þá náum við aldrei að rót vandans. Hérna erum við t.d. með þetta úrelta kerfi sem hreyfist á snigilshraða, hreyfist á hraða hestsins, hraða bréfpóstsins eins og var hérna á öldum áður, bara afsakið, svo maður segi það algerlega beint út. Þannig að já, þetta mál sýnir tvímælalaust öll rauðu flöggin, að hugsa: Fyrirgefið, getum við komið með einn plástur í viðbót til að reyna að halda þessu gangandi, til að ná þessum kynslóðaskiptum? Kannski ættu það að vera kynslóðaskipti þarna frekar en ættliðaskipti, sem mér finnst dálítið áhugavert orð, mjög áhugavert nýyrði. Ég klóraði mér dálítið í hausnum og vissi ekki alveg hvað það þýddi fyrst, þurfti að lesa það nokkrum sinnum til að átta mig á því hvað þetta væri í raun og veru, þetta er eins og hnéliðaskipti eða eitthvað því um líkt. Mér finnst þetta mjög frumlegt, mjög góð leið til þess að vekja athygli á málinu, fyrirsagnastíllinn á þessu.

Þetta er svona, held ég, í svo mörgum málaflokkum. Við erum að vinna með mjög gamlan grunn að kerfi sem á einhvern veginn að fúnkera í menntakerfinu, í heilbrigðiskerfinu og úti um allt, sem er einfaldlega orðinn úreltur. Við erum líka með þannig kerfi hérna á þingi, það næst ekki að komast til botns í umræðu og endurskipulagningu á þessum stóru þungu kerfum sem við þurfum að uppfæra reglulega. Það segi ég bara komandi úr hugbúnaðargeiranum og sem tölvunarfræðingur. Þegar maður fær þessi gömlu stýrikerfi og gömlu forrit til þess að skoða þá segir maður bara: Nei, ég er ekkert að fara að setja upp Windows 95 til að keyra þetta forrit. Jú, ég get sett upp einhverja hermun á því o.s.frv. en það felst vinna í því að endurgera gamla leiki með nýrri tækni, af því að þetta eru bara mjög góðir leikir. Landbúnaðurinn er algerlega nauðsynlegur leikur, ef má segja það, í efnahagslífinu. Það er lífsnauðsynlegt að vera með matvælaframleiðslu en matvælaframleiðslan er svo gríðarlega breytt, allt öðruvísi og fjölbreyttari heldur en hún var bara á síðasta áratug. Fjölbreytnin og framfarirnar sem koma á næsta áratug úrelda jafnvel stóran hluta landbúnaðarins sem er í gangi núna. Það kæmi mér ekkert á óvart, ekki neitt.

Ég hvet til þess að við förum enn þá dýpra í þetta og af alvöru að klára í rauninni ekki bara plásturinn og hvernig núverandi hagaðilar sjá sínu veski í rauninni best borgið, miðað bara við ákveðið öryggi — þetta hefur verið eins og það er og við höfum haft það af, einhver þurftarbúskapur. Hugsum þetta aðeins stærra, í alvöru, því að við þurfum á því að halda á svo mörgum sviðum. Eftir því sem við látum það bíða lengur og lengur og hlutirnir úreldast meira og meira og við erum með fleiri og fleiri plástra, þeim mun erfiðara verður að fara alla leið. Og alltaf að muna þetta: Já, við komum kannski með nýtt kerfi sem þarf alltaf að slípa til, það eru nýir leikir sem koma út, það þarf smá „patcha“ hingað og þangað, eitthvað sem þarf að laga, smá vesen o.s.frv. En gerum það reglulega. Við megum ekki binda okkur við það: Við bjuggum til kerfi sem kemur til með að virka að eilífu. Það virkar ekki þannig. Það er allt sem breytist í kring sem við þurfum að taka tillit til og aðlagast og uppfæra frá grunni reglulega.

Þetta er mín stutta athugasemd um þennan málaflokk og svo marga aðra.