154. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2023.

ættliðaskipti og nýliðun í landbúnaðarrekstri.

52. mál
[16:17]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka andsvarið. Ég hef enga trú á töfralausnum. Það er eins og með hið fullkomna samfélag. Við sjáum það í hillingum fyrir okkur á mismunandi hátt. Við sjáum mismunandi fullkomið samfélag fyrir okkur í ákveðnum hillingum en jafnvel þó að við myndum sjá sameiginlegt fullkomið samfélag fyrir okkur, við værum öll sammála um að þetta væri hið fullkomna samfélag sem við myndum ná, myndum við á leiðinni þangað átta okkur á því að við vildum eitthvað annað, að við ætlum aðeins að breyta af því að þetta hér er orðið sniðugra. Það er af því að þróunin í áttina að hinu fullkomna samfélagi — á þeirri leið lærum við eitthvað nýtt, búum til eitthvað nýtt sem breytir möguleikunum á því hvað við sjáum að sé mögulegt fullkomið samfélag. Ef við erum t.d. með þingsályktunartillögu hérna um kjötrækt, hún er mun stærri í sniðum, sú tækni sem slík. En það er tækni sem gerir fólki kleift að rækta bæði kjöt og líka plöntur og ýmislegt svoleiðis, í rauninni hvað sem er sem byggt er á frumum, án þess að þurfa að drepa dýr, einfaldlega. Þar með breytist í rauninni landbúnaðarbyltingin, þessi 10.000 ára gamla uppfinning, að setja girðingu í kringum dýr og rækta dýr til þess að hafa ofan í okkur og á, breytist yfir í það að við þurfum hvorki girðingar né húsdýr lengur. Það verður tvímælalaust til staðar alveg eins og við þurfum ekkert að fara út og skjóta villt dýr eða veiða villt dýr, við gerum það samt einhverra hluta vegna. Það verða einhverjir áfram sem stunda þá iðju en á allt öðrum forsendum. Ég held að það komi í staðinn fyrir verksmiðjuframleiðslu á dýrum til manneldis eða annars. Það eru spennandi tímar fram undan.