154. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2023.

ættliðaskipti og nýliðun í landbúnaðarrekstri.

52. mál
[16:19]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta er ágætisumræða sem hér á sér stað um mjög mikilvægt mál. Ég er alveg sammála því sem er kannski undirtónninn í þessari tillögu, að treysta búrekstur í landinu og að við getum verið nokkuð sjálfbær í matvælaöryggi þjóðarinnar. Það er eitthvað sem ég tel að við séum öll sammála um að við viljum. Kannski þekkja aðrir það betur en ég en sannarlega er það þannig að nýliðun í landbúnaði er áskorun sem er verið að glíma við, held ég, víða um heim, ekki bara hér á Íslandi. Samkvæmt því sem ég hef eftir matvælaráðherra þá eru þessi vandamál m.a. eitt af því sem er talsvert mikið rætt þegar þeir hittast og ber saman um að það sé kannski engin ein einföld lausn, enda eins og við vitum erum við bæði að tala um samfélagslegar áskoranir og hagrænar áskoranir.

Eins og kemur fram hér í greinargerðinni er einmitt kannski undirliggjandi, hvort heldur það liggur í fjárfestingu eða öðru, að hátt verð á landi getur verið fyrirstaða. Við þekkjum það af umræðu hér inni í þingsalnum að landbúnaðurinn er fjármagnsfrekur í dag þótt veltan sé ekki endilega rosalega mikil og við þekkjum að það eykur auðvitað á erfiðleikana fyrir ungt fólk til þess að taka lán. Þrátt fyrir að Byggðastofnun veiti talsvert mikið, og 100% lán til kynslóðaskipta, þá hefur afkoman auðvitað, sérstaklega í sauðfjárræktinni, eins og við höfum rætt hér oft, ekki verið svoleiðis að það kannski sé mikill hvati í því fólginn, það er óhætt að segja það. Það hefur eiginlega verið þannig um áratugaskeið.

Í dreifðu byggðunum eru kannski líka aðrar miklar samfélagslegar áskoranir eins og við höfum líka rætt hér. Við getum talað um kaldan húsnæðismarkað. Það er minni þjónusta. Þetta er erfið vinna. Það er erfitt að komast í frí og fá einhvern til að leysa sig af. Það er margt sem getur kannski staðið því fyrir þrifum að fólk leggi í þetta þegar það bætist ofan á einmitt mikill kostnaður við það að fara í svona skipti eða að kaupa.

Ég er ekki viss um að þetta, eins og svo mörg önnur mál sem hér eru flutt, sé endanleg lausn á þessum áskorunum sem við búum við. Það er sú nálgun að heimila kannski einni stétt að ráðstafa eignum til erfingja án þess að það sé greiddur af því erfðafjárskattur eða söluhagnaður. Það eru sannarlega gallar í því fólgnir, við vitum það, held ég. Til dæmis geta verið einhverjir tilteknir bændur sem mest eiga sem fá auðvitað mest út úr slíkri ráðstöfun. Svo eru kannski líkur á því, og það væri nú gaman í sjálfu sér að diskútera það, að svona úrræði til handa einni stétt — hvort það myndi líka skapa réttaróvissu varðandi rétt annarra lögerfingja. Við þekkjum því miður að það eru kannski jarðir sem hafa farið úr ábúð og það eiga margir eignina og það gerist ekkert af því að það er einhver einn eða tveir sem eru mjög óhressir, þótt það sé búið að reyna að taka talsvert mikið á því. Það er alveg eitthvað sem gæti komið upp varðandi svona hluti, ef það er ekki samkomulag, að einn erfinginn fær allt góssið, beinlínis, þið vitið, án þess að þurfa að leggja endilega mjög mikið út fyrir því umfram eitthvað. Það eru margir vinklar á þessu. Við þekkjum að það geta verið alls konar fjölskylduerjur og annað slíkt sem verða þess valdandi að þetta getur snúist í höndunum á viðkomandi.

Svo má velta því líka fyrir sér hvort ætti að afmarka einhver svæði þar sem þetta er heimilt, t.d. má velta fyrir sér kostum og göllum þess. Svo er skipulag á vettvangi sveitarfélaga — hvað er landbúnaðarland? Við erum oft búin að tala um það hér, að flokka landbúnaðarland, sem hefur ekki kannski tekist nógu vel að gera. Það má líka velta fyrir sér hvort þetta ætti að eiga við alla eða þar sem eru kaldari svæði eða eitthvað slíkt. Þetta eru svona vangaveltur sem koma til þegar maður les þetta, þegar maður er aðeins búinn að setja hausinn í þetta, af því að þetta er eitt af því sem rætt er talsvert mikið við alla vega okkur þingmenn í dreifbýlinu. Þegar maður hittir bændur er auðvitað eðli máls samkvæmt talað mjög mikið núna, og ekki síst á þessum tímum þar sem verðbólga er há og vextir háir, um þessa fjármögnun og bara að ungt fólk sjái sér ekki fært, jafnvel þótt það langi til, að taka við.

Mér finnst hugurinn góður í þessu og það væri bara skemmtilegt að fjalla um þetta og einmitt fá upp kannski vangaveltur í kringum þetta sem maður er að velta upp. Auðvitað er alltaf þannig að það eru einhvers staðar einhverjir agnúar og stundum er bara hægt að sníða þá af. Eins og ég segi, þrátt fyrir að þetta eigi við um matvælaöryggi þjóðarinnar í sjálfu sér — mér finnst það vera svona stærsti punkturinn undir í þessu til að kannski réttlæta að ein stétt umfram aðra gæti lotið þessum lögmálum. En ég vildi bara rétt aðeins koma hérna inn í þetta. Mér fannst þetta áhugavert þegar ég var að hlusta á ykkur spjalla um þetta og ég tel að þessi tillaga sé alla vega alveg þess verð að hún eigi að fá umfjöllun inni í atvinnuveganefnd.