154. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2023.

fæðingar- og foreldraorlof.

11. mál
[16:48]
Horfa

Flm. (Jóhann Páll Jóhannsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi okkar í þingflokki Samfylkingarinnar til breytinga á lögum nr. 144/2020, um fæðingar- og foreldraorlof. Um er að ræða margháttaðar tillögur að breytingum á fæðingarorlofskerfinu sem miða allar að því að tryggja betur afkomuöryggi foreldra og stuðla að auknu jafnvægi milli vinnu og fjölskyldulífs. Frumvarp sama efnis var áður lagt fram á 153. löggjafarþingi. Þá bárust umsagnir frá fjórum aðilum: Alþýðusambandi Íslands, Félagi íslenskra fæðingar- og kvensjúkdómalækna, samtökunum Fyrstu fimm og Ljósmæðrafélagi Íslands. Í öllum umsögnum kom fram mikil ánægja með efni frumvarpsins.

Áður en ég vík að efnisatriðum þessa þingmáls vil ég koma því á framfæri að við í þingflokknum teljum gríðarlega brýnt að stigin verði frekari skref til lengingar á fæðingarorlofi. Í skýrslu sem unnin var af Norðurlandaráði í fyrra í tengslum við verkefnið Fyrstu 1.000 dagar barnsins á Norðurlöndunum er lagt sérstaklega til í kafla sem fjallar um Ísland og stefnumótun í málefnum barna á Íslandi að fæðingarorlof verði lengt í 18 mánuði. Það er alveg ljóst í mínum huga að hver einasti mánuður sem fæðingarorlof yrði lengt um myndi skipta sköpum fyrir barnafólk í landinu, hvort við erum að tala um að lengja það upp í 14 mánuði, 16 eða 18 eins og þarna er lagt til. Þá er algjört lykilatriði, og ég legg áherslu á þetta og við öll, að í anda jafnréttissjónarmiða sé gert ráð fyrir sjálfstæðum rétti hvors foreldris fyrir sig til fleiri orlofsmánaða.

Ég átta mig hins vegar á því að lenging fæðingarorlofs mun ekki fara í gegnum Alþingi í formi einhvers þingmannafrumvarps. Það er mál sem kallar á ríkan pólitískan vilja við ríkisstjórnarborðið, það kallar á víðtækt samráð við aðila vinnumarkaðarins. Þá þarf að ná pólitískri sátt um fjármögnun, huga vel að tímasetningu með tilliti til efnahagsaðstæðna o.s.frv., hvort það sé skynsamlegt að gera hlutina í skrefum. Ég vil benda á að árið 2012 samþykkti Alþingi frumvarp um að fæðingarorlof yrði lengt og næmi þá 12 mánuðum frá og með árinu 2016 en eitt af fyrstu verkum nýrrar ríkisstjórnar árið 2013 var að hætta við þessa lengingu. Fyrir vikið var fæðingarorlofið ekki lengt fyrr en árið 2020. Nú held ég að það sé löngu tímabært að stíga enn stærri skref, rétt eins og hefur verið gert á hinum Norðurlöndunum, foreldrum og börnum til heilla. Ég er sannfærður um að ríkissjóður Íslands, vinnumarkaðurinn og íslenskt atvinnulíf standi vel undir því og að til langs tíma muni allt samfélagið njóta góðs af.

Frumvarpið sem ég mæli hér fyrir felur í sér ýmsar breytingar á núgildandi fæðingarorlofslöggjöf og tillögurnar gætu í sjálfu sér hver um sig staðið sjálfstætt og verið þá til mikilla bóta á því kerfi sem við höfum nú þegar. Ég legg þetta hér fram í einu stóru lagafrumvarpi til að varpa ljósi á þá sýn sem við í Samfylkingunni höfum á fæðingarorlofskerfið, hvert ætti að stefna með það, hvernig hægt er að koma upp fæðingarorlofslöggjöf í anda jafnaðarmennsku með afmörkuðum breytingum.

Víkjum þá að efnisatriðum frumvarpsins. Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar sem snúast sérstaklega um afkomuöryggi tekjulægstu foreldra og að sporna gegn því að nýfædd börn á Íslandi alist upp við fátækt. Þá er lögð til í fyrsta lagi sú grundvallarbreyting á ákvæði 23. gr. laganna, um útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, að fyrstu 350.000 krónurnar af viðmiðunartekjum foreldra í hverjum mánuði verði óskertar, þ.e. að þessi 80% regla sem við þekkjum, reglan um 20% skerðingu á viðmiðunartekjum, taki einungis til þeirra viðmiðunartekna sem eru umfram þessa 350.000 kr. fjárhæð. Við leggjum svo til að sú fjárhæð skuli endurskoðuð við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til launaþróunar, verðlags og stöðu efnahagsmála í landinu. Hvað þýðir þetta? Jú, þetta þýðir að ef foreldri hefur t.d. 600.000 kr. í meðaltekjur á mánuði á viðmiðunartímabili fæðingarorlofsins fær viðkomandi fyrstu 350.000 krónurnar óskertar og fær svo aðeins 80% af þeim 250.000 kr. sem eftir eru. Mánaðarleg greiðsla verður þá 550.000 kr. í stað þeirra 480.000 kr. sem viðkomandi hefði ellegar fengið, þ.e. í núgildandi fæðingarorlofskerfi. Þetta er auðvitað alger lykilaðgerð til að gera þessa reiknireglu sanngjarnari af því að það hlýtur að vera hverjum manni og hverri konu augljóst að launalægsta fólkið á Íslandi má ekki við því að verða fyrir 20% tekjuskerðingu þegar það eignast barn. Þessi breyting skapar þá líka tekjulægstu fjölskyldum aukið fjárhagslegt svigrúm og auðveldar fólki að nýta sér allan þann rétt sem það á til töku fæðingarorlofs.

Í öðru lagi leggjum við til hækkun á fæðingarstyrk námsmanna og fæðingarstyrk fyrir fólk utan vinnumarkaðar. Hér erum við að tala um fjárhæðir sem eru ekki sérstaklega háar í stóra samhengi ríkisfjármálanna, enda eru ekki mjög margir sem reiða sig alla jafna á þessa styrki. Samkvæmt núgildandi lögum skal fæðingarstyrkur til foreldris utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli aldrei vera lægri en sem nemur 83.233 kr. á mánuði og fæðingarstyrkur námsmanna aldrei vera lægri en sem nemur 190.747 kr. á mánuði. Þetta eru auðvitað smánarlegar fjárhæðir sem duga hvergi nærri til framfærslu. Við leggjum til að stigið verði það skref hér með þessu frumvarpi að þessar lögbundnu lágmarksfjárhæðir hækki um 50%, sem felur þá í sér 35,8% hækkun miðað við fjárhæðir ársins 2023 samkvæmt reglugerð nr. 1510/2022, um fjárhæðir greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, reglugerð sem hefur verið sett á grundvelli núgildandi fæðingarorlofslaga. Auk þess leggjum við til að námsmenn sem þiggja fæðingarstyrk eigi rétt á styrk til framfærslu annarra barna undir 18 ára aldri sem nemur einföldum barnalífeyri á mánuði, rétt eins og gildir um lánþega hjá Menntasjóði námsmanna. Þetta er viðbót frá því að frumvarp þetta var fyrst lagt fram hér á síðasta löggjafarþingi.

Í umsögn sem Alþýðusamband Íslands sendi velferðarnefnd þegar frumvarpið var til meðferðar á síðasta þingi kemur fram að ASÍ taki undir öll sjónarmið flutningsmanna að því er varðar afkomuöryggi foreldra, enda ljóst að 20% skerðing á tekjum lágtekjufólks geti haft stórfelld áhrif á velferð fjölskyldna. ASÍ segist styðja þá leið að láta skerðinguna einungis taka til tekna umfram 350.000 kr. og Alþýðusambandið tekur undir það sjónarmið að það þurfi að hækka bæði fjárhæðir fæðingarstyrks og hámarksgreiðslur fæðingarorlofs — sem ég kem að núna. Við leggjum nefnilega líka til að þak á mánaðarlegri greiðslu fæðingarorlofs hækki úr 600.000 kr. upp í 800.000 kr. Þetta er í okkar huga sjálfsagt jafnréttismál og auðvitað ætti þetta þak að vera talsvert hærra þegar við erum með tekjutengt fæðingarorlofskerfi á annað borð, rétt eins og fæðingarstyrkirnir ættu e.t.v. að vera enn þá hærri heldur en við erum hér að leggja til. En einhvers staðar þarf að byrja. Þetta er okkar lágmarkskrafa núna; að þakið fylgi verðlagi frá því að það hækkaði síðast, sem þýðir að það hækkar upp í 800.000 kr.

Svo leggjum við til, virðulegi forseti, ákveðna kerfisbreytingu. Við leggjum til að hér á Íslandi verði lögfestur sérstakur réttur til launaðs meðgönguorlofs eins og tíðkast í Noregi og Danmörku, þ.e. að mælt verði sérstaklega fyrir um það í lögum að barnshafandi foreldri sé heimilt að hefja töku fæðingarorlofs allt að fjórum vikum fyrir áætlaðan fæðingardag án þess að sá tími komi til frádráttar þeim tíma sem foreldri á rétt til launaðs fæðingarorlofs eftir að barn fæðist. Að þessu hníga mjög sterk heilsufarsleg rök. Tillagan er í takti við sjónarmið sem komu fram í umsögnum Félags íslenskra fæðingar- og kvensjúkdómalækna, Félags íslenskra heimilislækna og Ljósmæðrafélags Íslands þegar núgildandi fæðingarorlofslög voru til þinglegrar meðferðar 2019 og 2020. Þessi fagfélög bentu á að konur eru gjarnan orðnar óvinnufærar á síðustu vikum meðgöngu vegna þunga, vegna meðgöngutengdra kvilla og óþæginda. Hér þarf líka að hafa sérstaklega í huga að möguleikar kvenna til veikindaleyfis á vinnumarkaði eru mjög mismunandi og þar hallar t.d. á konur af erlendum uppruna, sérstaklega konur í láglaunastörfum. Þessi réttur til sérstaks launaðs meðgönguorlofs, sem er að norrænni fyrirmynd, er í raun til þess fallinn að jafna aðstæður kvenna í lok meðgöngu. Lögfesting þessa réttar eykur líka fyrirsjáanleika fyrir atvinnurekendur og auðveldar þeim að skipuleggja afleysingu fyrir barnshafandi konur.

Tillagan um meðgönguorlof er líka í samræmi við niðurstöður sem koma fram í stöðuskýrslu um barneignaþjónustu frá árinu 2020 sem unnin var af starfshópi á vegum heilbrigðisráðuneytisins. Þar eru færð rök fyrir því að meðgönguorlof á 36. viku sé mikilvægt fyrir heilsu kvenna, auk þess réttlætismál. Þar kemur fram að jafnvel þegar um er að ræða fullkomlega eðlilega meðgöngu sé álag á konum gríðarlega mikið á seinni hluta meðgöngunnar sem geti þá haft áhrif á heilsu þeirra og framvindu fæðingar og fæðingarupplifun. Auk þess sé, eins og ég nefndi, veikindaréttur mismunandi og þar standi erlendar konur í láglaunastörfum verst að vígi. Þetta eru einmitt störf sem eru oft líkamlega krefjandi. Starfshópurinn telur að ef allar konur öðlist rétt til orlofs í lok meðgöngu, óháð réttindastöðu þeirra gagnvart vinnuveitanda eða stéttarfélagi, megi ætla að konur verði ekki eins þreyttar þegar líður að fæðingu og þannig betur upplagðar í fæðinguna og umönnun barnsins í kjölfarið.

Þá held ég að við séum komin að frumlegustu tillögunni í þessu frumvarpi sem er sú að lögfestur verði sérstakur réttur foreldris til vinnutímastyttingar að loknu fæðingarorlofi með stuðningi úr Fæðingarorlofssjóði. Hver er hugsunin hér? Nú er staðan þannig að Ísland er eftirbátur flestra OECD-ríkja þegar kemur að jafnvægi milli vinnu og fjölskyldulífs. Við erum í 32. sæti í þessum flokki samkvæmt lífsgæðasamanburði OECD og skerum okkur þannig mjög rækilega úr hópi Norðurlandaþjóða. Sem dæmi eru Noregur og Danmörk í öðru og þriðja sæti á þessum lista. Tyrkland er eina landið á listanum sem fær lægri einkunn heldur en Ísland þegar kemur að jafnvægi milli vinnu og fjölskyldulífs sem er auðvitað óboðlegt og kallar á mjög afgerandi aðgerðir af hálfu löggjafans.

Á vettvangi Evrópusambandsins hefur verið lögð áhersla á að tryggja foreldrum með ung börn rétt til sveigjanlegs vinnutíma. Í þessu samhengi vil ég vísa hér til Evróputilskipunar 2019/1158 um jafnvægi milli fjölskyldu- og atvinnulífs. Í Svíþjóð hafa t.d. foreldrar barna sem eru yngri en átta ára fortakslausan rétt til allt að 25% skerðingar á starfshlutfalli. Þar er fæðingarorlof reyndar miklu lengra heldur en hér, 480 dagar eða 16 mánuðir, og börn eiga svo lögbundinn rétt til leikskólavistar frá 12 mánaða aldri. Það er reyndar umhugsunarvert að á flestum Norðurlöndunum er börnum tryggður slíkur réttur en ekki á Íslandi. Þá er bara gert það sem þarf að gera, í samstarfi milli ríkis og sveitarfélaga, til að tryggja að þetta raungerist, rétt eins og gildir til að mynda um grunnskóla á Íslandi. Í Svíþjóð er það þannig að foreldrar nýta þá gjarnan restina af fæðingarorlofsréttinum til að minnka við sig vinnu á fyrstu æviárum barnsins til að geta varið meiri tíma með barninu. Hér á Íslandi eiga foreldrar samkvæmt núgildandi fæðingarorlofslöggjöf rétt á svokölluðu foreldraorlofi í fjóra mánuði til að annast barn fram að átta ára aldri en þetta er ólaunað orlof sem eðli máls samkvæmt nýtist helst þeim sem hafa efni og tök á því að hverfa frá störfum og afsala sér tekjum. Raunar heyrir til algerra undantekninga að þessi réttur sé nýttur yfir höfuð. Ég spurði hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra um þetta á þarsíðasta löggjafarþingi og fékk svör um það hversu mörg heimili nýta sér þennan rétt. Árið 2021 voru það 13 heimili sem nýttu sér þennan rétt til foreldraorlofs. Þannig að ég held að sú tillaga sem hér er lögð til sé talsvert markvissari leið til að skapa jafnvægi milli vinnu og fjölskyldulífs á Íslandi og þá óháð heimilistekjum og óháð aðstæðum almennt. Með breytingunni munu foreldrar eiga rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði sem reiknast á sama hátt og fæðingarorlofsgreiðslur nema í hlutfalli við skerðingu á starfshlutfalli. Við gerum ráð fyrir óframseljanlegum rétti fyrir hvort foreldri til allt að 20% minnkunar starfshlutfalls í allt að sex mánuði. Við förum þessa leið vegna jafnréttissjónarmiða, að sjálfsögðu.

Virðulegi forseti. Ég hef farið hér nokkuð ítarlega yfir efnisatriði frumvarpsins. Allt eru þetta tillögur sem snúast um að bæta kjör nýbakaðra foreldra og gera fæðingarorlofskerfið okkar réttlátara og sterkara. Fram undan eru kjaraviðræður á almennum og opinberum vinnumarkaði sem fara fram við mjög erfiðar aðstæður í efnahagslífinu, á tímum mikillar verðbólgu og hárra vaxta. Eins og ég hef rakið í ræðu minni hefur Alþýðusamband Íslands lýst yfir stuðningi við þær grundvallarbreytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu, m.a. á reiknireglu fæðingarorlofs. Ég vil hvetja hæstv. ríkisstjórn sérstaklega til að kynna sér vel þessar tillögur og þá með hliðsjón af þeirri staðreynd að það hefur ósjaldan gerst á undanförnum árum og áratugum að ríkisstjórn á hverjum tíma stigi inn og lofi því að hafa forgöngu um ákveðnar lagabreytingar, umbætur á tilfærslukerfunum okkar o.s.frv. til að liðka fyrir farsælli lendingu á vinnumarkaði þegar þess hefur gerst þörf. Og þótt ég segi sjálfur frá held ég að í þessum frumvarpspakka sé ágætis efniviður sem mætti alveg horfa til.

Að því sögðu legg ég til að málið gangi til hv. velferðarnefndar að lokinni þessari umræðu. Ég hlakka til að fylgja málinu eftir á þeim vettvangi.