154. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2023.

fæðingar- og foreldraorlof.

11. mál
[17:31]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Ég má til með að koma upp og tala aðeins meira um þetta mikilvæga mál sem hefur verið smá áhugamál hjá mér, að skoða kjör námsmanna og taka saman hvernig það er fyrir námsmenn í raun og veru að eignast börn í námi. Mig langar aðeins að ítreka það sem ég sagði áðan, að stúdentar sem hafa aðeins rétt á fæðingarstyrk ef þeir hafa verið í 75% námi eða meira á sex mánaða tímabili í 12 mánuði fyrir fæðingu barns fá 191.000 í sex mánuði. Einstaklingur sem uppfyllir ekki að hafa lokið 75% námi fær styrk fyrir fólk utan vinnumarkaðar upp á 83.000 kr.

Ég tók saman fyrir tveimur árum síðan hvernig þetta væri fyrir námsmann í þessari stöðu og mig langar aðeins til þess að setja smá samhengi í hlutina og skoða hvernig það er fyrir fjölskyldur að vera í námi, á stúdentagörðum og eignast barn. Veltum fyrir okkur húsaleigu á stúdentagörðum þar sem hagstæðasta leigan fyrir námsmenn ætti að vera. Leiga á fjölskylduíbúð var fyrir tveimur árum síðan 128.000 kr. á mánuði. Fjölskylda þar sem foreldrar fengju bæði fæðingarstyrk væri þá með heildartekjur upp á 382.000 kr. á mánuði. Ef þau hefðu hvorugt verið í meira en 75% námi og í minna en 25% starfshlutfalli hefðu þau bæði fengi styrk fyrir fólk utan vinnumarkaðar og væru þá samtals með 166.000 kr. Eftir að hafa borgað leigu og fengið húsaleigubætur væru þau með um 88.000 kr. til að framfleyta þriggja manna fjölskyldu í mánuð. Er raunhæft að þriggja manna fjölskylda geti lifað á því? Nei, það er ekki mjög raunhæft og sú fjölskylda lifir í fátækt.

Hvað með einstætt foreldri sem fær fæðingarstyrk og er að leigja stúdentabúð og fær húsaleigubætur? Hversu mikill afgangur er eftir þessi útgjöld? Samtals um 105.000 kr. sem foreldrið þarf að nýta í fæði og uppihald fyrir sig og ungbarn. Ímyndum okkur þá að þetta sé einstætt foreldri sem getur ekki verið í fullu námi og eignast barn, búandi á stúdentagörðum. Sá einstaklingur gæti ekki einu sinni borgað húsaleigu með styrknum sem hann fengi. Hann þyrfti að taka lán upp á rúmlega 3.000 kr. til að borga leiguna. En hvað með allan annan kostnað; mat og uppihald? Á þetta einstæða foreldri að lifa — á hverju? Loftinu? Á foreldrið að taka sér lán til að eiga í sig og á? Þarna er verið að búa til fátækt. Það er mér mjög mikilvægt að verið sé verið að vinna að því að rétta stöðu námsmanna sem er klárlega verið að gera með þessu frumvarpi. En það þarf algerlega líka að ganga lengra og skoða þetta út frá því hversu lágar upphæðir þetta eru í raun og veru og hvað þetta er óraunhæft fyrir fjölskyldufólk í námi.

Ef við höldum áfram á þessari braut, ef við breytum þessu ekki, ef við bætum ekki við þótt það væri ekki nema 50% — það væri alla vega byrjunin á einhverju sem verður vonandi einhvern tímann mannsæmandi fyrir fjölskyldurnar — þá missum við unga foreldra úr námi. Það er bara þannig. Fólk hefur ekki efni á því að mennta sig og það gengur gegn hagsmunum okkar, almennings, það gengur gegn hagsmunum fjölskyldna og barna auðvitað og bara framtíðar okkar sem menntað samfélag. Við viljum að einstaklingar í samfélaginu mennti sig.

Mig langar líka aðeins að koma inn á geðtengslin. Það er svo mikilvægt að mynda góð geðtengsl við barn í frumbernsku, og auðvitað alltaf en í frumbernsku gerist eitthvað sérstakt, þar verða tengslin sem hjálpa okkur fyrir lífstíð að tengjast öðru fólki og upplifa öryggi í umhverfinu okkar. Ef fátækt er ekki áhættuþáttur í því að upplifa verri geðtengsl, bæði foreldra við börnin sín og barna við foreldrana þá veit ég ekki hvað. Við vitum að fátækt er bara hættuleg þessum tengslum. Öll aukastreita og annað getur verið mjög áhættusamt.

Ég sé að þeir umsagnaraðilar sem hafa sent inn umsögn um þetta frumvarp eru á einu máli um að það sé bara mjög mikilvægt og gott. Við þurfum að huga að þessu og við þurfum að taka þetta alvarlega vegna þess að afleiðingarnar af því að við hugum ekki nógu vel að þessu og hugsum ekki nógu vel um foreldra eru svo miklu meiri en ég held að við gerum okkur grein fyrir. Börnin sem eru í þessu umhverfi sem við erum að skapa sem samfélag verða fullorðnir einstaklingar — hvað er meðalaldurinn? 87 ára eða eitthvað — og við viljum sinna þessu fólki frá frumbernsku, alveg þangað til að þau verða gömul, og við viljum að þetta séu heilbrigðir einstaklingar. Við viljum alla vega hjálpa fjölskyldunum að reyna að passa að þau tengist öðru fólki og tengist samfélaginu og fjölskyldunni og líði vel. Fátækt er ekki leiðin til þess.

Þannig að ég fagna þessu enn og aftur. Ég fann mig bara knúna til þess að koma hingað að tala um þetta vegna þess að mér finnst þetta mjög mikilvægt og ég er bara mjög ánægð með þetta.