154. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2023.

skráning menningarminja.

97. mál
[17:38]
Horfa

Flm. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um skráningu menningarminja. Flutningsmenn með mér á tillögunni eru hv. þingmenn Jódís Skúladóttir, Orri Páll Jóhannsson, Bjarni Jónsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir.

Tillagan í heild sinni hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að gera stórátak í skráningu menningarminja, annars vegar minja sem eru í hættu vegna loftslagsbreytinga eða annarrar náttúruvár, svo sem vegna landbrots, og hins vegar menningarminja almennt.“

Ég ætla aðeins að gera grein fyrir þessari tillögu, rökstuðningi við hana og af hverju hún er lögð fram. Hún var áður lögð fram á 153. löggjafarþingi án þess að hljóta afgreiðslu. Þá bárust fjórar umsagnir um tillöguna, frá Félagi fornleifafræðinga, Minjastofnun Íslands, Samtökum iðnaðarins og Þjóðminjasafni Íslands. Í lok ræðu minnar ætla ég aðeins nánar að gera grein fyrir þessum umsögnum.

Af hverju tillaga um minjavernd? Minjavernd er hverju samfélagi mikilvæg og Ísland geymir miklar menningar- og náttúruminjar sem brýnt er að rannsaka og skrá með faglegum hætti. Það er hægt að kynna sér á vef Minjastofnunar hvað menningarminjar eru, en til þeirra teljast ummerki um sögu þjóðarinnar, svo sem fornminjar, menningar- og búsetulandslag, sögustaðir, kirkjugripir og minningarmörk, hús og önnur mannvirki, skip og bátar, samgöngutæki, listmunir og nytjahlutir, svo og myndir eða aðrar heimildir um menningarsögu þjóðarinnar. Þetta er auðvitað gríðarlega stór og víðfeðmur flokkur sem menningarminjar eru og má kannski segja að þar sé hin efnislega saga okkar varðveitt. Minjastofnun fer með málefni menningarminja, en þó einungis takmarkað í tilfelli gripa, sem eru að mestu leyti á ábyrgð Þjóðminjasafns Íslands, og skjala og mynda, sem eru að mestu leyti á ábyrgð Þjóðminjasafns Íslands og/eða Þjóðskjalasafnsins.

Við sem erum flutningsmenn þessarar tillögu og vonandi fleiri teljum mikilvægt að efla og auka skráningu á fornleifum og menningarminjum og efla alla minjavernd. Þetta er tvíþætt í raun, eins og kemur fram í tillögunni, þ.e. annars vegar merkar minjar sem eru í hættu t.d. vegna loftslagsbreytinga eða náttúruvár eins og landbrots. Því miður er staðan sú að mikill fjöldi minja um allt land er í stórhættu vegna sjávarrofs. Það eru minjar um m.a. sjávarútveg og sjósókn Íslendinga frá landnámi allt fram á 20. öld og því er um að ræða gríðarlegt magn af ómetanlegum menningarverðmætum sem eru nær órannsökuð og munu, ef ekki verður gert átak, hverfa í sjóinn vegna ágangs náttúruaflanna, en landbrot er víða mikið og fer vaxandi vegna loftslagsbreytinga. Svo er einnig nauðsynlegt að efla skráningu menningarminja almennt vegna þess að í fornminjum og með fornleifarannsóknum getum við eflt þekkingu þjóðarinnar á okkar dýrmætu menningararfleifð. Ég tel að í minjavernd felist jafnframt mikil tækifæri sem eru mikilvæg fyrir menningar- og náttúrusögu landsins og ef vel er haldið á hlutum geta svæði með menningarminjum orðið að eftirsóknarverðum áfangastöðum um land allt. Við vitum það sjálf þegar við ferðumst um Ísland eða til annarra landa að til eru svæði sem hafa að geyma sögu og minjar, hvort sem það eru hús, gripir eða eitthvað annað, sem oft laðar okkur að svæðunum.

Í 21. gr. laga um menningarminjar, nr. 80/2012, kemur fram að enginn, hvorki landeigandi, ábúandi eða einhver framkvæmdaraðili, megi gera neitt til að raska svæði né flytja úr stað fornleifar nema með leyfi Minjastofnunar Íslands. Þá segir þar einnig að ef nauðsyn krefur láti Minjastofnun Íslands rannsaka fornleifar með uppgreftri eða á annan hátt. Það er auðvitað forsenda þess að geta verndað fornleifar og komið í veg fyrir að framkvæmdaraðilar brjóti hreinlega óafvitandi lög með því að skemma fornleifar, að þeir hafi vitneskju um að fornleifar gætu verið staðsettar þar sem þeir eru að athafna sig. Til þess að svo verði er nauðsynlegt að auka rannsóknir á menningarminjum.

Frú forseti. Líkt og ég sagði í upphafi máls míns bárust á síðasta löggjafarþingi, þegar málið var fyrst lagt fram, fjórar umsagnir um málið. Ég myndi segja að þær væru allar jákvæðar. Samtök iðnaðarins leggjast ekki gegn tillögunni og líta heilt yfir frekar jákvætt á málið, en benda á að það eru dæmi þess að ferlið við varðveislu menningarminja geti gert fyrirtækjum í mannvirkjagerð erfitt fyrir vegna þeirra tafa sem það getur haft í för með sér. Þetta er sjónarmið sem ég held að sé alveg vert að hafa í huga en þess vegna er engu að síður mikilvægt að efla umgjörðina og skrá menningarminjarnar, vegna þess að saga okkar býr þar. En það er líka svo mikilvægt, eins og ég fór yfir hérna áðan, að við vitum um tilvist minjanna til að hægt sé að koma í veg fyrir að þeim sé raskað og þar með örugglega þær tafir sem gætu annars komið upp.

Þjóðminjasafn Íslands, Minjastofnun Íslands og Félag fornleifafræðinga fagna tillögunni. Minjastofnun bendir á að það sé rík ástæða til að skráning menningarminja nái einnig til mannvirkja og húsa, auk þess sem það kemur fram að hún telur verkefnið eiga best heima hjá stofnuninni af því að þar sé reynsla bæði af skráningu fornleifa og húsa og mannvirkja. Félag fornleifafræðinga bendir á að vísindaleg fornleifafræði sé ung grein á Íslandi og hér skorti grunnrannsóknir og gögn sem aðrar þjóðir eiga til. Það er einmitt vegna þessa sem ég tel mikilvægt að flytja þessa tillögu og vonandi fá hana samþykkta. Þá bendir félagið á að ekki sé ljóst samkvæmt tillögunni hvernig umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra eigi að úthluta því fjármagni sem stórátak í skráningu menningarminja myndi fela í sér ef tillagan yrði samþykkt.

Ég tel einboðið að verði farið í stórátak með samþykkt þingsályktunartillögunnar sé það auðvitað unnið á faglegum forsendum og með sérfræðingum á þessu sviði. Það eru auðvitað m.a. og kannski einna helst þeir aðilar sem skiluðu inn umsögn um málið. Ég tel alveg einboðið að við vinnslu málsins í nefnd verði Þjóðminjasafn Íslands, Minjastofnun Íslands og Félag fornleifafræðinga kölluð að borðinu því að þar liggur sérfræðiþekkingin ef menn vilja fara í frekari rökstuðning með málinu. Annars vona ég að þetta mál, sem ég tel mikilvægt, fái gott brautargengi hér á Alþingi og legg til að málinu verði vísað til allsherjar- og menntamálanefndar að lokinni þessari umræðu.