154. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2023.

staðgreiðsla við innborgun í lífeyrissjóði.

98. mál
[18:17]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir andsvarið. Hvaða áhrif hefur það á launafólk? Það hlýtur náttúrlega að vera háð því hvað launafólk hefur í tekjur. (Gripið fram í.) Mér skildist að hv. þingmaður væri að tala um meðallaunafólk, þá sem væru með svona meðallaun. Þau áhrif eru í rauninni engin. (Gripið fram í.) Það hlýtur algerlega að liggja í því hvernig gengur að ávaxta fjármunina. Ég veit ekki betur en að það hafi tapast og gufað upp 600 milljarðar í einhverju bríaríi hjá lífeyrissjóðunum hérna eftir hrun. Ég veit ekki betur en að árið 2000 hafi eignir lífeyrissjóðanna numið um 80% af vergri landsframleiðslu en árið 2022 var hlutfallið komið upp í 180%. Og ég veit ekki betur en að meðaljónarnir núna, með þessu kerfi sem hv. þingmaður er hér að mæra, skilji ekkert í því hvers vegna í ósköpunum þeir eru að lepja dauðann úr skel og hvað þeir hafa verið að gera allan þennan tíma þegar þeim var talin trú um að með því að greiða lögþvingað í lífeyrissjóði þá væru þeir að skapa sér einhverja betri lífsafkomu til efri áranna. Það sem þessi þingsályktunartillaga felur í sér er grundvallarbreyting fyrir ríkissjóð án þess að hækka skatta til að taka utan um þá sem við í Flokki fólksins teljum að þurfi nauðsynlega á aðstoð að halda.

Fyrst ég er ekki alveg búin ætla ég að bæta því við fyrir hv. þingmann: Hver einasti einstaklingur sem ég hef talað við hefði frekar viljað greiða skattinn sinn við innborgun í lífeyrissjóðina en við útborgun. Ég spyr hv. þingmann á móti: Hefurðu spurt einhvern meðallaunamann um það hvort hann hefði ekki frekar viljað vera laus við skattgreiðsluna þegar hann var að fá þessa hungurlús sína út úr lífeyrissjóðunum?