154. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2023.

staðgreiðsla við innborgun í lífeyrissjóði.

98. mál
[18:34]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég er meðflutningsmaður þessa máls, tillögu til þingsályktunar um staðgreiðslu við innborgun í lífeyrissjóði. Hér er lagt til að fjármála- og efnahagsráðherra leggi fram lagafrumvarp fyrir árslok 2024 þess efnis að staðgreiðsla skatta fari fram við innborgun í lífeyrissjóð en ekki við útgreiðslu lífeyrissparnaðar og að þeim fjármunum sem breytingin skilar verði varið til aukinnar velferðar. Gildandi fyrirkomulag er þannig að iðgjöld í lífeyrissjóði og mótframlög vinnuveitenda eru ekki skattlögð í dag. Þess í stað eru greiðslur úr lífeyrissjóði til lífeyrisþega skattlagðar. Þannig er skattlagningu þeirra fjármuna sem mynda skattstofn lífeyrissparnaðar frestað þar til kemur að útgreiðslu þeirra.

Þessi ávöxtun lífeyris, sem lífeyrisþeginn greiðir og er ekki borgaður skattur af í dag fyrr en við útgreiðslu, er svo sannarlega ekki áhættulaus eins og dæmin sanna og borið hefur við að lífeyrissjóðir skili verulegu tapi. Það var komið inn á það hjá framsögumanni að í kringum hrunið eða eftir hrun hafi tapið verið hátt í 600 milljarðar. Það sýnir þær tölur sem hér er fjallað um.

Það kom fram í andsvörum áðan að þetta væri bein árás á lífeyrissjóðakerfið og þá datt mér í hug árás sem núverandi ríkisstjórn er með í undirbúningi, sem er lagafrumvarp um slit á ÍL-sjóði. Lífeyrissjóðirnir keyptu skuldabréf í ÍL-sjóði, Íbúðalánasjóði á sínum tíma, með ótrúlega hárri ávöxtun, mig minnir að hún hafi verið 3,7 eða 3,5%, og festu til margra ára og hafa verið með þá ávöxtun undanfarin ár á öllu lágvaxtatímabilinu. Þetta er bein árás með því að slíta sjóðnum og gera hann upp þannig að skuldabréfin verði greidd upp og lífeyrissjóðir fái ekki notið þeirrar ávöxtunar á þeim skuldabréfum sem þeir keyptu á sínum tíma. Ef frumvarpið verður að lögum þá tel ég það brjóti gegn eignarréttarákvæðinu og 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu sem verndar eignarréttinn, kveður á um friðhelgi eignarréttarins. Ég efast ekki um að það mál muni lenda í Strassborg hjá Mannréttindadómstól Evrópu og ef dómstóllinn dæmir ekki — þetta er reyndar veikt ákvæði enda sett í viðauka á sínum tíma til að fá öll ríki Evrópu, vestræn ríki Evrópu og sósíaldemókratísk ríki líka sem aðila að Evrópuráðinu og mannréttindasáttmálanum. Það var ekki í upphaflega skjalinu heldur sett í viðauka þannig að það er veikt eignarréttarákvæði, en ef árás á eignarrétt samkvæmt skuldabréfi verður ekki talin brot á 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu þá er það ákvæði einfaldlega ónýtt. Þannig að ég tel líkur til að lífeyrissjóðirnir geti sótt rétt sinn þangað, a.m.k. ef íslenskir dómstólar verja ekki eignarréttinn þegar kemur að árásum ríkisins með lögum um slit ÍL-sjóðs, talandi um árás á lífeyrissjóðina.

Það er áhyggjuefni hve mikil umsvif lífeyrissjóðanna eru í íslensku viðskiptalífi. Þeir eru alltumlykjandi í íslensku samfélagi. Á síðustu árum hafa eignir lífeyrissjóðanna stóraukist og námu um 6.950 milljörðum kr. í lok júní 2023. Tæplega 7.000 milljarðar voru eignir lífeyrissjóðanna núna um mitt sumar, 7.000 milljarðar. 6.950 milljarðar voru eignir lífeyrissjóðanna í lok júní í ár. Inngreiðslur í samtryggingarsjóði eru um 290 milljarðar kr. á ári. Þetta eru engar smátölur. Árið 2000 námu eignir lífeyrissjóðanna um 80% af vergri landsframleiðslu en árið 2022 var hlutfallið komið í 180% samkvæmt hagtölum lífeyrissjóðanna sem birtast á vef Landssamtaka lífeyrissjóða, lifeyrismal.is. Eignir lífeyrissjóðanna hafa aukist úr 80% af vergri landsframleiðslu í 180% af vergri landsframleiðslu í fyrra, eru í ár 7.000 milljarðar.

Þetta eru alveg gríðarlega háar tölur. Og þegar maður horfir á það í svona litlu samfélagi eins og Ísland er og ekki síst ef maður horfir á stjórnarsetu í lífeyrissjóðunum þar sem atvinnurekendur hafa líka tögl og hagldir, atvinnurekendur og fulltrúar verkalýðsfélaganna — lífeyrissjóðsfélagar fá ekki að kjósa í þessar stjórnir sem sýnir ótrúlegan lýðræðishalla í íslensku samfélagi, svo ekki sé meira sagt — þá er hér um risamál að ræða. Útkoman er sú að stór hluti íslenskra fyrirtækja er í eigu óvirkra aðila. Lífeyrissjóðir hafa ekki beitt sér fyrir eigendaábyrgð sem hluthafar, gera það yfirleitt ekki í heiminum, t.d. í Bandaríkjunum, ekki nema í sérstökum tilvikum, reyndar eru ákveðin ríki með aktífa lífeyrissjóði, en stefna þeirra er yfirleitt ekki að vera með eigendaábyrgð sem hluthafar. Ég þekki ekki til neins sjóðs þar sem lífeyrissjóður á hlut og fer með svokallaða eigendaábyrgð. Hann er svona fylgisaðili sem eigandi í stjórn, en það er löng saga að fjalla um það hins vegar.

Undanfarin ár hafa lífeyrissjóðir sætt gagnrýni fyrir að fjárfesta í áhættusömum fyrirtækjum, greiða stjórnarmönnum ofurlaun og styðja við viðskipti sem sjóðfélögum blöskrar. Með því að greiða skatt af iðgjöldum við innlögn í lífeyrissjóð má sporna við því að lífeyrissjóðir verði óeðlilega stórir miðað við stærð hagkerfisins. Hér er vissulega verið að fjalla um það að þetta gríðarlega umfang lífeyrissjóðanna verði minnkað með því að skattleggja við innlögn en ekki við útgreiðslu. Ég tel að um ákveðið réttlætismál sé að ræða og það sýnir að lífeyrissjóðakerfið er komið í ákveðnar ógöngur, bæði hvað varðar stærð, stjórnun, stjórnarsetu og líka að þetta virðist vera hít sem er alltaf að hækka í, verið að hækka greiðslur eins og var í frumvarpi í vor þar sem var kveðið á um það að hækka greiðslur í lífeyrissjóði.

Eðli málsins samkvæmt lækkar það fjármagn sem streymir inn í lífeyrissjóðina um það sem nemur staðgreiðslunni verði breytingin sem kveðið er á um í þessari tillögu að veruleika. Á móti kemur að ekki greiðist skattur þegar sá sparnaður er leystur út og hefur breytingin ekki í för með sér hlutfallslega rýrnun á ávöxtun lífeyrissjóðanna. Það þýðir að ef vel gengur í ávöxtuninni þá njóta sjóðfélagar þess. Það er fáránlegt að það sé verið að skattleggja það þegar fólk er komið á eftirlaun eða þarf greiðslur úr lífeyrissjóði af öðrum orsökum.

Miðað við greiðslur í lífeyrissjóði á árinu 2022 og 36% skatt myndi staðgreiðsla við innborgun skila ríkissjóði og sveitarfélögum samtals rúmum 100 milljörðum kr. árlega. Samkvæmt þessari tillögu myndi þetta því veita þjóðinni einstakt tækifæri til úrbóta. Hér er verið að tala um að flytja peninga sem eru skattlagðir og setja þá í að efla heilbrigðiskerfið, fjölga dvalarheimilum og hjúkrunarrýmum, gera átak til að auðvelda atvinnuþátttöku öryrkja sem er helsta baráttumál Flokks fólksins, þ.e. stoppa þær blæðingar hjá öryrkjum og öldruðum sem skerðingarnar fela í sér, það sem kemur í veg fyrir að þeir fái að njóta sín á atvinnumarkaði á Íslandi. Þetta myndi leiða til þess að fleiri kæmust aftur inn á vinnumarkað og skiluðu ríkissjóði enn auknum skatttekjum.

Það er alveg með hreinum ólíkindum að það sé verið að skerða lífeyri hjá fólki, lífeyri almannatrygginga, þegar það tekur þátt í atvinnulífinu. Við erum raunverulega ekki með þriggja stoða lífeyriskerfi sem byggir á almannatryggingum, lífeyrissjóðum og séreignarsparnaði. Við erum með eins konar fátækrahjálp þegar kemur að almannatryggingum ríkisins.

Draga þarf úr skattbyrði launafólks og lífeyrisþega og auka ráðstöfunartekjur þeirra. Það er gert með því að hætta skattlagningu við útgreiðslu lífeyris. Þá myndi þetta minnka líkur á því að fólk þyrfti að fjármagna neyslu með skuldsetningu og festist í fátæktargildru, þ.e. ef öryrkjum yrði auðvelduð atvinnuþátttaka. Grundvallarforsenda þessarar tillögu er að auknir fjármunir hins opinbera verði nýttir í þágu fólksins.

Ég tel mikilvægt að þetta mál fari til nefndar og fái góða umfjöllun þar. Það er ekki verið að flytja það í fyrsta sinn. En það sýnir að við erum með lífeyrissjóðakerfi þar sem eignir í dag eru tæplega 7.000 milljarðar og hafa hækkað sem hlutfall af vergri landsframleiðslu úr 80% af vergri landsframleiðslu í 180%.