154. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2023.

staðgreiðsla við innborgun í lífeyrissjóði.

98. mál
[19:00]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvarið. Ég get ekki talað fyrir hönd allra í Pírötum en ég get alveg talað fyrir mína hönd, ég tel að þetta sé hlutur sem eigi að skoða. Það þarf að sjálfsögðu að fara vel í gegnum þetta út frá tryggingastærðfræðilegum forsendum, markmiðum og öðru. Hvað þýðir þetta fyrir fólk ef þú er tvítugur í dag og ert að byrja að borga inn í lífeyrissjóð og borgar þetta staðgreitt? Ef við miðum við að ávöxtun hvers árs væri meðaltalið sem er oft notað í Bandaríkjunum, sem er 10%, það væri árlegt, hvernig kemur það út? Ætti ég meiri pening eða minni milli handanna eftir 45 ár þegar ég færi á ellilaun? Sama þyrftum við að skoða fyrir eldri kynslóðirnar. Skiptir þetta máli, hjálpar þetta? Og svo: Hvaða áhrif hefur þetta á ríkissjóð? Það er auðvelt að sjá að ef skattarnir koma inn strax í upphafi þá koma tekjur þá, en á þeim tíma sem fólk og samfélagið eldist og þetta fólk er ekki að borga skatta, hvaða áhrif hefur það? Allt þetta þarf að skoða og það þarf að skoða það með opnum hug. Það má ekki bara henda hlutum út af borðinu með einhverjum skeytasetningum hérna af því að málið kemur einhvers staðar annars staðar frá heldur en frá ríkisstjórninni sjálfri. Við eigum að skoða þetta allt. Við eigum að líta á þetta með opnum hug og síðan að taka upplýstar ákvarðanir um það hvort þetta væri breyting sem væri góð eða ekki. Þannig eigum við að vera að vinna hérna á þingi.