154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

sameining MA og VMA.

[10:47]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegur forseti. Með leyfi forseta: „Hví er ég Arinbjarnarson en hvorki Kúld né Schiöth sem búa á númer 13 í sömu götu og ég, í sama húsi og ég“, söng Spilverk þjóðanna um árið. Nú er spilverk sjóðanna í mennta- og barnamálaráðuneytinu komið á fleygiferð í sparnaðar- og sameiningarpælingum, væntanlega að frumkvæði eða með atfylgi hins öfluga ráðunauts ráðherra og fyrrum ASÍ-forkólfs, Gylfa Arnbjörnssonar — Arinbjarnarsonar mætti kalla hann, Arnbjarnarsonar. Rétt er að geta að góðu öflugrar forystu hans um árabil í verkalýðsmálum þar sem hvorki meira né minna en 50 aðildarfélög voru sameinuð undir ASÍ-fánanum. Rétt er þó að vara við því að sambærilegur metnaður verði látinn gilda um sameiningu skólastofnana og verkalýðsfélaga.

Sameining Menntaskólans á Akureyri og Verkmenntaskólans á Akureyri er efst á blaði og hefur mætt öflugri andstöðu í Norðausturkjördæmi mínu. Til að mynda hafa verið viðraðar hugmyndir um að sameina Menntaskólann í tónlist og Menntaskólann við Hamrahlíð og fyrir hönd tónlistarmanna, en með fullri virðingu fyrir báðum skólum, vil ég vara eindregið við slíkum hugmyndum sem ég tel að myndu skaða mjög hin nýstofnaða Menntaskóla í tónlist, stofnun hvers ég studdi með ráðum og dáð. Vissulega mætti spara sitthvað með sameiningu ýmissa skóla. Væri Verslunar- og rafiðnaðarskóli Íslands málið? Sjómanna- og menntaskólinn í Reykjavík? Tækni- og kvennaskólinn í Reykjavík, Málmiðnaðar- og menntaskólinn á Ísafirði, Dans- og menntaskólinn við Sund, svo dæmi séu tekin?

Mig langar að spyrja ráðherra um stöðu mála varðandi hina mjög svo umdeildu sameiningu Menntaskólans á Akureyri og Verkmenntaskólans á Akureyri.