154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

sameining MA og VMA.

[10:52]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það blikka milli eyrnanna mér þrjú þriggja stafa orð: así, það er asi og svo ási. Ergo: Ég bið um að það verði enginn asi, ekkert hlaupið, við skulum ganga hægt að breytingum í þessa veru. Ég bið um að í þessu tiltekna tilfelli verði ekki hrapað að neinum niðurstöðum. Það er talað um stóraukna gjaldaliði vegna stóraukins fjölda erlendra nema og erlendra þegna sem kjósa að búa hér, gerast íslenskir. Við skulum ekki gleyma þeim stórauknu tekjum sem við erum að fá hér í meira mæli en nokkru sinni í Íslandssögunni og þegar menntun og menning er annars vegar þá látum við ekki krónur og aura ráða för. (Forseti hringir.) Við höfum gildin í fyrirrúmi og við hróflum ekki við því sem er jafn rótgróið og fast í menningu okkar (Forseti hringir.) og menntasögu og Menntaskólinn á Akureyri.