154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

sameining framhaldsskóla.

[10:55]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Forseti. Það er óhætt að segja að hugmyndir um sameiningu framhaldsskóla á Akureyri hafi fallið í grýttan jarðveg enda er þörfin óljós. Við MA stunda 600 nemendur nám, við VMA 1.200. Þetta eru vel rekstrarhæfar einingar ef ekki væri fyrir ómögulegar reglur að ofan. Halli á MA eykst t.d. vegna þess að það er svo mikil ásókn í hann, ríkið bara borgar ekki fyrir nemendurna. Rekstur beggja skóla þyngist vegna húsnæðiskostnaðar, leigu sem þessir ríkisreknu skólar greiða ríkinu. Þetta er bara absúrd, forseti.

Þegar skýrsla um meinta eflingu framhaldsskólanna er lesin, sem ráðherra byggir ákvarðanir sínar á, þá blasir við að vandinn liggur ekki hjá skólunum sjálfum heldur ráðuneytunum sem eru bara illa haldin af einhverri excel-blindu. Ég geri ráð fyrir að ráðherrann viti betur en að ætla bara að halda fyrir nefið, sameina með valdi og reka skólann eins og eitthvert svínabú. Við sjáum orðið flest í gegnum leikrit ráðherra. Við sjáum að það hafi sennilega aldrei staðið til að sameina þessa skóla heldur sé þetta einfaldlega útspil. Það er verið að þyrla upp moldviðri vegna þess að ráðherrann er ósáttur við sinn hlut í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Hann vill fá meiri pening í fjárlögum. Þess vegna vil ég spyrja ráðherrann: Nú hann búinn að sprengja upp skólasamfélagið á Akureyri bara til að kreista út fjármuni frá þeim sem meiru ráða við stjórnarborðið — er hann í alvöru að nota framhaldsskólanemendur sem peð í valdatafli innan ríkisstjórnarinnar?