154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

aðgerðir stjórnvalda vegna fíknisjúkdóma.

[11:02]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Ég nefndi það í ræðu í gær að það hafa fimm látist í umferðarslysum það sem af er ári. Oft verið hærri tala en við erum markvisst að reyna að fækka slysum í umferðinni, erum með áætlanir og sáttmála sem ná mörg ár fram í tímann. Samkvæmt tölum frá SÁÁ stefnir í að um 80 manns látist úr fíknisjúkdómum á þessu ári og athugið, kæru þingmenn og aðrir sem heyrið, þetta er bara fólk undir fimmtugu sem hefur leitað sér aðstoðar hjá SÁÁ. Þarna vantar inn fólk sem hefur ekki farið til SÁÁ og er yfir fimmtugu. 80 einstaklingar eru því vanáætlun. Ef þessar tölur sæjust í umferðinni væri búið að lýsa yfir neyðarástandi. Við myndum aldrei sætta okkur við þetta og við myndum leggja milljarða í ný göng, breikkun vega, brýr og gatnamót. En það birtast ekki fréttir í fjölmiðlum af þeim sem látast úr fíknisjúkdómum. Dauðsföllin verða engu að síður. Þetta eru feður, mæður, bræður og systur. Börn missa foreldra sína. Viðbragð okkar er ekki í neinu samræmi við alvarleika málsins.

Ríkisstjórnin boðaði í apríl aukið fjármagn til SÁÁ vegna ópíóíðafaraldursins. Samkvæmt mínum upplýsingum hefur ekkert samtal átt sér stað um þetta. Peningarnir hafa ekki borist og valið stóð á milli þess að skerða þjónustu vegna ópíóíðafíknar eða loka meðferðarstöðinni í sex vikur. Þetta er ótrúlega sorglegt, ekki síst þegar við höfum í huga að í fyrra dóu 12 einstaklingar á meðan þeir biðu eftir þjónustu. Samfella á milli Vogs og Víkur er lífsnauðsynleg í sumum tilfellum og það gengur ekki upp að loka Vík í sex vikur á ári.

Hæstv. heilbrigðisráðherra varpaði ábyrgðinni á þessu yfir á SÁÁ hér á þinginu fyrr í vikunni. Hann sagði að þetta væri sjálfstæð ákvörðun samtakanna, að ráðuneytið hefði ekki verið með í ráðum og vel væri hægt að halda þessu opnu ef vilji væri til. Ég endurtek: Ef vilji væri til. Telur sem sagt hæstv. ráðherra að það hafi skort vilja til að halda meðferðarstöðin opinni? Og hvers vegna hefur skort á samtal á milli stjórnvalda og SÁÁ um peningana sem lofað var og hvenær eiga þeir að berast svo að hægt sé að þjónusta veikt fólk með þessa banvænu fíkn betur?