154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

aðgerðir stjórnvalda vegna fíknisjúkdóma.

[11:08]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta málefni hér á dagskrá. Ég vil staðfesta það fyrst að það er mikilvægt að við ræðum þessi mál jöfnum höndum því að þetta er raunverulega ekki einfalt mál. Þetta er flókinn sjúkdómur og fólk er á misjöfnum stað samfélagslega. Þetta er eitt af þeim verkefnum sem við þurfum að takast á um samþætt. Jú, við eigum alveg að geta haldið meðferðarstöðinni Vík opinni vegna þess að staðreyndin er sú að þetta myndi kosta innan við 1% af ríkisframlagi. Það á ekki að standa í neinum. Ég er ekki að standa hér og varpa ábyrgðinni á einn eða neinn. Ég er bara að segja að ég er alltaf tilbúinn til samtals og hef spurt af hverju og hvað þurfi til að halda þessu gangandi. Ég ætla bara að ítreka það hér líka að ég er fyrir þó nokkru búinn að fela Sjúkratryggingum Íslands að kaupa meiri þjónustu sem snýr að meðferð í við ópíóíðafíkninni.