154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

Hjúkrunarrými og heimahjúkrun.

[11:14]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni og formanni Samfylkingarinnar, Kristrúnu Frostadóttur, fyrir þessa umræðu og fyrir að setja þetta stóra mál á dagskrá. Þetta er sannarlega mikil áskorun þjóðar að þjónusta okkar elstu og bestu. Öldrun þjóðar er áskorun alls staðar í heiminum og auðvitað jákvæð á margan hátt en hún krefst þess af okkur að mæta henni með ýmiss konar úrræðum og búsetuúrræðum og aðhlynningu. Það er mikilvægt að horfa á þetta í samhengi velferðar. Þess vegna er það sem þetta stóra mál, mikilvæga mál — og ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma inn á þetta á þessum breiða grunni í fjölmörgum áherslum og vona um leið að hv. þingmaður fyrirgefi mér það að komast ekki yfir það allt saman og allar þær áherslur — vegna þess að þetta er svona mál sem kallar á fjölmörg úrræði. Verkefnið Gott að eldast fær þetta vægi í stjórnarsáttmála vegna þess að ríkisstjórn horfir svona á málið. Það kallar á aukna heimahjúkrun, aukna endurhæfingu, aukna dagþjálfun, mjög markvissa stefnumótun, aðgerðaáætlun, framkvæmdaáætlun en líka aukinn sveigjanleika í að byggja upp hjúkrunarrými, sem hv. þingmaður kemur hér mjög vel inn á. Það er það sem við höfum gert og ég hef gert í samvinnu við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Við erum að vinna núna að útfærslu til að komast út úr þessu formi, að vera einvörðungu með þessa skiptingu um lögbundnar skyldur sveitarfélaga og ríkis til að byggja í ákveðnum hlutföllum. Þetta er þungt ferli og það hafa orðið tafir nánast úti um allt land á meðan við erum með fjölmörg önnur úrræði sem má horfa til. Ef við gerum ekkert þá getum við kannski horft á einhvern fasta miðað við ákveðna öldrun um að það þurfi að byggja svo og svo mörg rými. Eins og hv. þingmaður kom inn á þá er það dýrt og það er dýrara úrræði heldur en að vinna að virkni með fólki og styðja við það heima. Þar erum við hv. þingmaður svo sannarlega sammála.

Við höfum þar af leiðandi þegar farið af stað og auglýst eftir húsnæði sem hefur skilað tveimur spennandi verkefnum sem geta skilað þessum 200 rýmum sem, eins og hv. þingmaður dregur hér fram, við getum horft fram á á næstu fimm árum að gæti verið vöntun á ef við gerum ekki neitt og ef við leggjum ekki aukna áherslu á endurhæfingu, sem við höfum verið að gera. Við höfum verið að opna viðbótarrými á Eir sem tekur við af Landspítala, við höfum opnað endurhæfingarrými með Sóltúni. Það eru fjölmargir aðilar þarna sem kunna þetta og geta þetta og hafa áratugareynslu, jafnvel alda-, af því að vinna þessa hluti og við eigum að treysta þeim líka með okkur í þessa vegferð. Við höfum aukið samvinnu á milli þessara aðila og beint við Landspítalann vegna þess að þar erum við auðvitað alltaf að horfa á þetta flæði sem þarf og samspil við sjúkrahúsin. Þegar við þurfum á aðhlynningu að halda, aðgerð eða inngripum, förum inn á sjúkrahús, förum í aðgerð og þurfum síðan að fara heim en þurfum að vinna upp styrk, þá er tilhneiging til þess að horfa til þess að viðkomandi aðili sé með færni- og heilsumat og þó að hann sé ekki með það þá er ekki víst að hann sé alveg tilbúinn til að fara einn heim, einn og óstuddur. Það er allur gangur þar á. En þetta flæði þurfum við að tryggja þannig að þetta er ekki alveg svona einfalt að það bíði bara hjúkrunarheimili sem taki svo við. Það er auðvitað mikill akkur, bæði ávinningur fyrir einstaklinginn og svo fyrir samfélagið allt, að horfa á þetta í þessu breiða samhengi. Það eru því fjölmörg verkefni sem hafa verið kortlögð.

Því miður verð ég líka að koma inn á það að það hefur ekki allt gengið sem skyldi. Af því að hv. þingmaður kemur sérstaklega inn á Reykjavík þá undirrituðu þáverandi heilbrigðisráðherra og borgarstjóri Reykjavíkur samning árið 2021 um byggingu 144 rýma hjúkrunarheimilis við Mosaveg. Það hefur tafist, því miður, allt of mikið, en var mjög mikilvægt verkefni inn í áætlun á þeim tíma og hefði svo sannarlega verið þörf á því. Við erum eiginlega á núllpunkti í því verkefni. En fjölmargt annað hefur gengið betur. Ég ætla kannski að reyna að tæpa síðar á einhverju af þeim fjölmörgu áhersluatriðunum sem hv. þingmaður kom hér inn á og hlakka til að hlusta á umræðuna, hæstv. forseti.