154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

Hjúkrunarrými og heimahjúkrun.

[11:36]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Í mínum huga er verkefnið Gott að eldast lykill að framþróun þjónustu við aldraða, enda eitt af forgangsverkefnum ríkisstjórnarinnar, leitt af félagsmálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti í samvinnu við fjölmarga í samfélaginu. Þessu samvinnuverkefni er ætlað að stuðla að auknu heilbrigði og lífsgæðum, m.a. með því að efla fjölbreytta heimaþjónustu og styðja við virkni eldra fólks. Verkefninu miðar vel áfram.

Eins og rakið hefur verið hér í umræðunni er málaflokkurinn á fljúgandi ferð, m.a. er samkvæmt framkvæmdaáætlun til ársins 2026 verið að byggja 559 hjúkrunarrými, þar af 404 ný rými. Áætlunin er endurskoðuð árlega. Auk þess hefur Framkvæmdasýsla ríkisins auglýst eftir húsnæði sem þegar er byggt og hægt væri að aðlaga að þörfum hjúkrunarrýma. Endurhæfingarrýmum hefur verið fjölgað og þjónustan þróuð, m.a. með sérstöku þróunarverkefni á Sólvangi. Sveigjanlegum dagdvalarrýmum hefur verið fjölgað og framlög til heimaþjónustu fara stöðugt vaxandi í samræmi við áherslur í málaflokknum þvert á það sem fram kom í forsendum í spurningum framsögumanns.

Á fjárlögum ársins í ár er 300 millj. kr. varið til að efla heimahjúkrun um land allt. 500 milljónum var úthlutað til heilbrigðisstofnana í lok árs 2021 til að þróa notkun velferðartækni í heimaþjónustu. 500 milljónum hefur verið bætt inn í málaflokkinn til rekstrar sérhæfðrar heimahjúkrunar og á fjárlögum næsta árs er bætt inn 360 milljónum til að mæta öldrun þjóðarinnar með fjölbreyttum lausnum.

Að lokum langar mig að leggja áherslu á áframhaldandi þróun þjónustu í samræmi við ólíkar aðstæður í ólíkum samfélögum um land allt, eins og gert er í verkefninu Gott að eldast. Ég vil sérstaklega draga fram að tímabært er að skoða sérstaklega stöðuna þar sem sveitarfélög reka hjúkrunarheimili í litlum byggðakjörnum, svo sem eins og á Vopnafirði, Þórshöfn og Grenivík.