154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

vaktstöð siglinga.

180. mál
[12:11]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Teiti Birni Einarssyni fyrir mjög góða spurningu. Ég tengi alveg við það að lesa greinargerð með frumvarpinu og vilja ná vel utan um þennan þátt sem snýr að útvistun verkefna, eða eftir atvikum útboði. Ég tek fram að Ríkisendurskoðun setur þetta sérstaklega fram í skýrslu, kannski svona til fyllingar því efni sem er í greinargerð með frumvarpinu, svo ég byrji bara þar. Varðandi það hvers vegna ekki eigi að bjóða þetta út frekar en að útvista verkefnum til Landhelgisgæslu eða að gera þjónustusamning þá gegnir vaktstöð siglinga, eins og ég kom inn á í minni ræðu, mikilvægu öryggishlutverki í siglingum hér við land, það er rétt og hv. þingmaður áréttaði það. Hér er um svolítið sérhæft verkefni að ræða sem kallar á sérstök fjarskiptakerfi og sérþekkingu.

Mér fannst hv. þingmaður undirbúa rökin og grunninn að þessari kjarnaspurningu mjög vel. Landhelgisgæsla Íslands sinnir í dag stjórnun daglegra verkefna vaktstöðvar siglinga og það verður ekki séð að unnt verði að útvista þessum hluta af verkefnum vaktstöðvarinnar til annarra aðila, það blasir einhvern veginn við, og af því leiðir að kannski er ekki rétt að gera kröfu um að það verði gert með útboði. Það er nú kannski ekki þannig að við séum alveg stíf á þessu ferli.

Hvað varðar þjónustusamninga um aðra þætti starfsemi vaktstöðvarinnar þá er heldur ekki talin ástæða til að gera kröfu um útboð og að mínu mati eru sterkari rök fyrir því að Vegagerðin geri þjónustusamninga við þá aðila sem við vitum að geta sinnt þessu hlutverki, sér í lagi við Neyðarlínuna, frekar en að stofnuninni sé gert að annast útboð á þessum verkefnum. Við erum svolítið stödd þarna með þessi sérhæfðu verkefni.