154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

vaktstöð siglinga.

180. mál
[12:29]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Teiti Birni Einarssyni fyrir ræðuna og ætla að draga fram hér það sem hv. þingmaður kom inn á í sinni ræðu og snýr að því hvort það þurfi að gera kröfu um fleira þegar farþegaskip tilkynna um það hvort og hvenær þau ætli að hleypa farþegum í land, hvort það sé ekki rétt að ganga lengra og huga að fleiri sjónarmiðum heldur en bara siglingaöryggi eins og gert er með þeirri breytingu sem lögð er til hér í 2. gr. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Jafnframt skulu þau með tilteknum fyrirvara tilkynna vaktstöðinni þegar þau hyggjast setja farþega í land utan hafna. Ráðherra skal með reglugerð mæla nánar fyrir um tilkynningarskyldu.“

Það er þetta með náttúruverndarsjónarmiðin sem hv. þingmaður kom inn á og það hafa verið settar auglýsingar um friðlýsingu nokkurra svæða, eða stjórnunar- og verndaráætlanir þeirra, í þeim má finna reglur sem snúa beint að landtöku á tilteknum svæðum. Hv. þingmaður kom m.a. inn á það sem ég ætlaði hér að koma inn á í andsvari og það er hlutur hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Hann svaraði fyrirspurn um þessi mál á síðastliðnu þingi og þar kom fram að landtaka væri áskorun á friðlýstum svæðum og hann hefði ákveðið að unnið yrði frumvarp um þetta og mér vitanlega er sú vinna í gangi og búið að boða þar almenna heimild til stýringar eða takmarkana á landtöku skemmtiferðaskipa sem verði færð í náttúruverndarlög. Ég vil síðan hvetja hv. þingmann til að fylgja því eftir í hv. umhverfis- og samgöngunefnd að ræða þessi önnur sjónarmið sem hann kom svo ágætlega inn á í sinni ræðu.