154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

póstþjónusta.

181. mál
[12:43]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um póstþjónustu, nr. 98/2019, fyrir hönd hæstv. innviðaráðherra. Þetta frumvarp var áður lagt fram á 153. löggjafarþingi og er nú endurflutt. Frumvarpið felur í sér minni háttar breytingar á lögunum og er tilefni þess þríþætt.

Í fyrsta lagi er frumvarp þetta flutt til að leiðrétta mistök við flutning stjórnsýslu póstmála frá Póst- og fjarskiptastofnun, nú Fjarskiptastofu, til Byggðastofnunar. Þetta var gert með frumvarpi til laga um breytingu á lögum um póstþjónustu og lögum um Byggðastofnun á þskj. 895 á 151. löggjafarþingi, máli nr. 534. Frumvarpið varð að lögum nr. 76/2021. Með lögunum var orðunum „Póst- og fjarskiptastofnun“ breytt í orðið „Byggðastofnun“ í I. og II. kafla laga um póstþjónustu en mistök leiddu til þess að hugtakabreyting þessi skilaði sér ekki í aðra kafla laganna og er hér lagt til að bætt verði úr því.

Í öðru lagi er nauðsynlegt að styrkja lagastoð fyrir innleiðingu Evrópureglugerða nr. 2018/644 og 2018/1263, en með reglugerðunum er leitast við að tryggja gagnsæi gjaldskráa póstrekanda yfir landamæri og greiða fyrir netverslun á milli landa. Þá er einnig lagt til að sett verði sérstakt innleiðingarákvæði í lögin til aukins skýrleika og í samhengi við reglugerðarheimild í d-lið 1. mgr. 47. gr. laganna, sbr. einnig 3. gr. frumvarpsins.

Í þriðja lagi er svo lagt til að heimild þjónustuveitanda til að nýta bréfakassasamstæður verði rýmkuð til muna frá þeim reglum sem nú gilda, en samkvæmt þeim er alþjónustuveitanda aðeins heimilt að setja upp bréfakassasamstæður á einum stað fyrir alla móttakendur póstsendinga í þéttbýli. Bréfasendingum hefur fækkað jafnt og þétt undanfarin ár á sama tíma og pakkasendingum fjölgar verulega.

Fyrr á þessu ári skilaði starfshópur á vegum ráðherra um alþjónustu í póstdreifingu af sér tillögum til úrbóta sem nú er unnið að í ráðuneytinu. Tillögurnar miða m.a. að því að lækka kostnað ríkissjóðs af póstþjónustu, þ.e. svonefndan alþjónustukostnað. Enn fremur eiga tillögurnar að tryggja að allir landsmenn fái notið póstþjónustu og greiði fyrir hana viðunandi verð, tryggja heilbrigða samkeppni á svæðum þar sem ekki er markaðsbrestur og greina mögulega skörun á milli laga um póstþjónustu og laga um farþegaflutninga og farmflutninga.

Ein af tillögum starfshópsins var að ráðuneytið léti gera könnun um afstöðu neytenda til póstþjónustu í landinu. Könnunin var gerð á vormánuðum 2022. Jákvæð afstaða til bréfakassasamstæðna í niðurstöðu könnunarinnar og jákvæð afstaða Norðmanna til aukinnar notkunar bréfakassasamstæðna í þéttbýli þarlendis gaf tilefni til að leggja til að rýmka heimild til að nota bréfakassasamstæður eins og hér er lagt til og draga með því úr bréfaburði upp að dyrum. Þá er líklegt að aukin notkun bréfakassasamstæðna geti mögulega minnkað alþjónustukostnað ríkissjóðs enda felur það í sér minni útburð fyrir alþjónustuveitanda.

Svokölluð póstbox sem Íslendingar þekkja vel og sækja pakka í er hliðstæða við bréfakassasamstæður og hefur þeim verið vel tekið hér á landi og ört vaxandi notkun þeirra gengið vel. Ljóst er að gæta verður að hagsmunum aldraðra og fatlaðra í þessu samhengi sem ekki treysta sér til að nota boxin.

Hæstv. forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins í stórum dráttum og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umræðu.