154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

póstþjónusta.

181. mál
[12:49]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir þessa spurningu. Þetta er kannski stærsta spurningin — ekkert kannski, þetta er stærsta spurningin í þessu máli í ljósi þeirrar umræðu og umsagna sem voru við málið þegar það var síðast lagt fram. Hér hefur augljóslega verið tekin ákvörðun um að gera ekki breytingar. Ég dreg þá ályktun að það sé fjölmargt sem þarf að hafa til hliðsjónar við útfærsluna eins og hér er lagt til svo mæta megi ólíkum þörfum þeirra hópa sem ekki geta nýtt sér bréfakassasamstæður eins og lagt er upp með. Þá þarf hreinlega að teikna upp heimaþjónustu í samræmi við ólíkar þarfir eins og þær birtast. Ég myndi alltaf leggja á það áherslu að gæta að hagsmunum þessara hópa sem eiga erfiðara með og geta jafnvel ekki nýtt sér þessar bréfakassasamstæður, eins og aldraðra, fatlaðra, sjúkra og annarra sem af einhverjum málefnalegum ástæðum treysta sér ekki til þess að nota boxin. Ég vil hvetja hv. umhverfis- og samgöngunefnd til að taka þetta mál föstum tökum í nefndinni og leggja hreinlega til útfærslu og hugmyndir að því hvernig megi útfæra þetta í reglugerð eins og lagt er upp með í þessu frumvarpi. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál upp í andsvari.