154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

póstþjónusta.

181. mál
[12:52]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni. Ég tek auðvitað undir með hv. þingmanni að skorast ekki undan ábyrgðinni að eiga það samráð. Sú ábyrgð speglast auðvitað í þeirri umræðu sem við eigum hér við 1. umræðu. Það er auðvitað ákveðið og mjög mikilvægt samráð sem á sér stað við umfjöllun hv. nefndar og það mun eiga sér stað. Eins og lagt er upp með í frumvarpinu geta ráðuneytið og ráðherrann auðvitað átt það samráð við þá hópa sem munu fylgja því máli eftir og ég er ekkert í vafa um að við getum náð nauðsynlegri útfærslu og leiðum til að bregðast við ólíkum þörfum þessara hópa sem geta af einhverjum sökum, vegna öldrunar, fötlunar, veikinda eða annars, ekki nýtt sér bréfakassasamstæður. Þetta er bara verkefni sem við leysum og hæstv. ráðherra mun ekki skorast undan þeirri ábyrgð og því samráði samhliða umfjöllun hv. umhverfis- og samgöngunefndar.