154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

póstþjónusta.

181. mál
[12:53]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við frumvarp til laga um breytingu á lögum um póstþjónustu nr. 98/2019. Það er ekki svo langt síðan, ekki nema síðan 2019, sem við sömdum ný lög um póstþjónustu sem voru mikið til umræðu í hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Þá var mikil umræða innan nefndarinnar um fyrirkomulag póstþjónustu á Íslandi og rekstur Íslandspósts og hvernig þjónusta væri búin að breytast með tímanum, hver þörfin væri og hverjar áskoranirnar í póstþjónustu væru. Það var niðurstaðan, áður en við kláruðum þessa nýju löggjöf, að kalla eftir því að stjórnvöld kæmu með heildarstefnumörkun um hvert skyldi stefna í póstmálum og hvernig skyldi bregðast við þessum nýja veruleika.

Það sem var kannski ekki síst kvartað undan var einmitt sú samkeppni sem Íslandspóstur hefur staðið í, út af því rekstrarfyrirkomulagi sem hann er í. Hann á að reyna að afla sér tekna til að skila sem minnstu tapi og svo er hann með þessa alþjónustukvöð og þarf að standa í samkeppni til að standa undir ákveðnum rekstri og er með ýmsar alþjóðlegar skuldbindingar líka sem hann á að sinna.

Staðan er bara sú að við höfum verið að greiða mörg hundruð milljónir úr ríkissjóði árlega til að þetta rekstrarform gangi upp. Við vorum sammála um hér á Alþingi að það gæti ekki gengið lengur. Því gerðum við eiginlega kröfu um að stjórnvöld myndu ganga í alvörunni í það að gera framtíðarstefnumörkun um hvernig póstmálum skyldi háttað og hvernig við skyldum leysa úr þessu. Innviðaráðuneytið setti af stað starfshóp um þetta mál sem skilaði skýrslu sem menn voru misánægðir með og mismikið hefur frést af. Ég verð að segja eins og er að þrátt fyrir að hafa fengið þá skýrslu í hendurnar er ég engu nær um hver stefna stjórnvalda er í málefnum Íslandspósts, ekki neitt, og það er ekki gott. Því tekur maður því misvel að fá einhvern svona bútasaum hérna inn um póstþjónustu án þess að vita hver stefna stjórnvalda er í póstmálum.

Það kom mér mjög á óvart þegar við fengum þetta frumvarp á síðasta þingi að það var ekkert verið að bregðast við og breyta lögunum í átt að þeirri stefnumörkun sem Alþingi hefur kallað eftir frá stjórnvöldum í þessum málum. Þannig að við nýttum tækifærið aftur í hv. umhverfis- og samgöngunefnd á síðasta þingi þegar við fengum þetta sama mál og við ræðum hér í dag í hendurnar, til að fara svolítið ofan í saumana á þessum málum og rifja upp það sem við höfðum gert áður í nefndinni og komumst aftur að þeirri niðurstöðu að það er eitthvað í gangi sem á ekki að vera. Það eru fyrirtæki í fjölbreyttum rekstri sem eru í samkeppni við Íslandspóst á póstmarkaði og kvarta mjög undan niðurgreiddri þjónustu Íslandspósts af ríkinu sem kemur í veg fyrir framþróun á þessum markaði til að auka bæði hagkvæmni og bæta þjónustu neytenda og borgaranna og þetta er líka mjög kostnaðarsamt fyrir ríkissjóð.

Ég er því á þeirri skoðun að við þurfum að draga verulega úr rekstri Íslandspósts, hafa það bara sem einhvers konar skrifstofu sem sér um það að tryggja að bjóða út alþjónustu, ef þarf, á einhverjum stöðum og tryggja það að þær alþjóðlegu skuldbindingar sem við erum með séu í einhverjum öruggum farvegi án þess að vera að reka hér heilu flutningafyrirtækin og pakkamiðstöðvarnar. Ég held að þetta sé vel hægt að gera af því að ég er orðinn sannfærður um það að með því að borga Íslandspósti allt að 600 millj. kr. á ári erum við að draga úr möguleikum einyrkja, hringinn í kringum landið, til að sinna póstþjónustu betur heldur en Íslandspóstur gerir. Við erum að borga Íslandspósti fyrir að bjóða bara upp á þjónustuna tvisvar til þrisvar í viku, á meðan það eru hér flutningafyrirtæki í landinu sem fara fimm til sex sinnum sama rúnt og Íslandspóstur býður út, sama rúnt, og hefðu hæglega getað bætt þeim pökkum sem Íslandspóstur er að þjónusta með í þær ferðir. Það yrði hagkvæmara fyrir alla og þjónustan betri. Þannig að til að auka þjónustu við borgarana hringinn í kringum landið og til þess að spara fjármuni úr ríkissjóði, skiptir miklu máli að við tökum einhverja stærri breytingar en fáum ekki svona eitt og eitt frumvarp til þess að plástra lögin þegar við höfum kallað eftir stefnumörkun frá Alþingi.