154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

bann við hvalveiðum.

99. mál
[13:35]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni ræðuna og það er gaman að sjá gamla lobbíistann taka sig upp í honum. Mér leið á köflum eins og ég væri ekki að hlusta á Jón Gunnarsson þingmann heldur Jón Gunnarsson, stofnanda og formann sjávarnytjarfélagsins sem hann setti á laggirnar til að berjast fyrir hvalveiðum. Svona getur fólk haft marga hatta. Það voru nokkur atriði, ég ætla nú ekkert að elta alla þvæluna í ræðu hv. þingmanns, mig langar bara að nefna nokkur atriði. Hann byrjaði á að býsnast yfir því að þetta frumvarp væri ekki í samræmi við einhverjar reglur í Stjórnarráðinu um það hvernig ætti að semja frumvörp. Mig langar bara að minna hv. þingmann á að hann er hættur að vinna í Stjórnarráðinu. Hér erum við á Alþingi Íslendinga og reglur Stjórnarráðsins gilda ekki um það hvernig við semjum frumvörp. Hv. þingmanni finnst kannski leiðinlegt að vera ekki lengur ráðherra en það er bara staðreyndin. Þær reglur gilda ekki hér.

Síðan langar mig að nefna það sem hann fettir fingur út í í greinargerðinni varðandi lög um dýravelferð. Þess er sérstaklega gætt að segja hvergi að lögin hafi verið brotin. Það er náttúrlega staðhæfing sem væri erfiðara að styðja en þær staðhæfingar sem eru þarna, að veiðarnar séu andstæðar lögunum, að veiðarnar samræmist ekki ákvæðum laga um dýravelferð og að veiðarnar stríði gegn lögum um dýravelferð. Þetta hefði þingmaðurinn kannski fattað ef hann hefði lesið alla frétt MAST um skýrsluna sem kom út í maí þar sem fyrirsögnin er hérna í stóru letri þannig að það sést ágætlega: Veiðar á stórhvelum samræmast ekki markmiðum laga um dýravelferð.

Þetta er bara efnislega það sama og stendur í greinargerðinni þannig að ef einhver er að drukkna í einhverjum upplýsingaóreiðupolli held ég að það sé frekar hv. formaður áhugafélags um hvalveiðar.