154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

bann við hvalveiðum.

99. mál
[13:38]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Um hvalveiðar gilda sérlög og þau eru uppfyllt, þannig að veiðarnar eru fullkomlega löglegar. Það er engan veginn réttlætanlegt að taka veiðar á þessum eina villta stofni, eða hvalveiðar, út fyrir samanburð á veiðum á öðrum villtum dýrum. Samræmast þá hreindýraveiðar dýravelferðarlögum? Og svo má lengi telja.

Svo fer náttúrlega hv. þingmaður, eins og hann kann kannski best hér á þingi í allri upplýsingaóreiðunni sem hann reynir að standa alltaf fyrir hér, ekki bara í þessu máli, í svo mörgum málum, það gildir nú kannski almennt um þann flokk sem hann kemur frá, hann fer að tala um lobbíistann Jón Gunnarsson og baráttu okkar fyrir því að hefja hvalveiðar aftur. Það er alveg rétt, ég var formaður samtakanna Sjávarnytjar. Síðast þegar það var aðalfundur í þeim samtökum var ég formaður og er það þá væntanlega enn þó að samtökin hafi nú ekki haldið fund í tvo áratugi eða u.þ.b., enda ekki ástæða til af því að hvalveiðar fóru af stað aftur. Við höfðum það að markmiði að hefja hvalveiðar. Ég þekkti nokkra menn sem höfðu unnið í hvalnum gamla daga og fór með þeim á fund. Ég hef aldrei unnið sjálfur í hvalnum eða þekkt nokkuð til þar. Það endaði með því að ég tók að mér þetta starf, þetta er upp úr 1995, og ég er stoltur af því. Ég held að við höfum haft mikil áhrif á pólitíkina á þeim tíma, á að hvalveiðar, með sínum eðlilega hætti, færu af stað aftur. Auðvitað er ekkert annað eðlilegra heldur en að þjóð sem býr hér norður á hjara veraldar — hefur sögulega nýtt hvalinn, stóð reyndar fremst í stafni við að vernda hvali gegn ofveiði á sínum tíma, ekki til þess að hætta veiðum alfarið inn í framtíðina heldur einmitt til þess til að vernda stofninn (Forseti hringir.) gegn ofveiði annarra þjóða, eins og við gerðum með útfærslu landhelginnar, til að gæta hagsmuna framtíðarkynslóða (Forseti hringir.) og þess að náttúruauðlindin væri til staðar fyrir þær þegar fram í sækti. (Forseti hringir.) Og það tókst.

(Forseti (ÁLÞ): Forseti vill minna þingmenn á að virða tímann.)