154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

bann við hvalveiðum.

99. mál
[14:03]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Frú forseti. Hér ræðum við frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna banns við hvalveiðum. Ég vil byrja á því að þakka fyrsta flutningsmanni, Andrési Inga Jónssyni, fyrir sína yfirferð. Mér finnst alltaf mikilvægt í þessu samhengi, hvort sem menn eru sammála eða ósammála því sem um er rætt hverju sinni, að maður reyni að fara inn í umræðuna með þeim hætti að maður komi sínum skoðunum á framfæri en geri kannski ekki lítið úr skoðunum annarra í staðinn, bara svo það sé sagt.

Hv. þingmaður fór vel yfir málið í ítarlegri greinargerð með frumvarpinu og kemur margt mjög áhugavert fram í henni. Áður en ég fer að tæpa á því þá held ég að það sé mjög mikilvægt að það komi fram að sá sem hér stendur er hlynntur allri auðlindanýtingu, ef við getum sagt það þannig, á sjálfbæran hátt.

Í þessu tilfelli erum við að ræða um hvali. Hvað það varðar hefur mikil umræða verið um velferð, að dauðastríð skepnunnar sé sem styst þegar verið er að fanga hvalinn. Ég held að mjög mikilvægt sé í þessu samhengi um velferð dýra, hvort sem það eru villt dýr eða önnur sem við höfum í hendi okkar hvort séu lifandi eða ekki, að farið sé að þeim á sem mannúðlegastan hátt í hvert og eitt skipti. Rauði þráðurinn hefur verið sá í gegnum þessa umræðu og frá því að þetta kom til tals fyrst í vor þegar matvælaráðherra bannaði tímabundið hvalveiðar. Hófust þær síðan aftur 1. september.

Það er mjög mikilvægt að hafa í huga í þessu samhengi, af því að menn hafa verið að tala um veiðar á villtum dýrum og hreindýraveiðar hafa komið þar við sögu, það sama á við um veiðar á villtum fuglum, t.d. grágæs og heiðagæs, að um veiðar á hreindýrum gilda vissulega mjög stífar reglur. Einstaklingar þurfa að gangast undir ákveðið próf og síðan er leiðsögumaður með. Það vill þannig til að ég þekki aðeins til þessara veiða og þekki þónokkra leiðsögumenn sömuleiðis sem í þessu eru. Það er alveg hárrétt sem hér hefur komið fram í umræðunni að menn eru alltaf tilbúnir með annað skot og jafnvel þriðja ef þess þarf til að dauðastríðið taki sem stystan tíma hverju sinni. Ég held að það sé það mikilvæga í þessu.

Hvað varðar hvalveiðarnar þá getum við alveg sagt okkur ef við berum þetta saman, þ.e. að vera á landi og skjóta hreindýr sem stendur grafkyrrt í einhverra metra fjarlægð, 100, 200 m eða svo, og veiðar á hval úti á sjó — það er svo sem ekki hægt að bera þetta saman, en miðað skýrslu Matvælastofnunar, sem vitnað hefur verið til varðandi það hvernig þetta gekk fyrir sig í fyrr, þá velti ég fyrir mér í þessu samhengi hvers vegna menn hafa ekki horft til þess sem mikið hefur verið rætt um, rafskutul og það að deyða dýrið hratt og örugglega með rafmagni. Ég ætla ekki að leggja dóm á hvort það sé hægt eða ekki þar sem ég þekki það ekki. En ég tek mjög mikið mark á því sem hér hefur komið fram því að ég veit að hv. þm. Jón Gunnarsson hefur ansi mikla þekkingu. Þótt hann hafi ekki reynslu af veiðum á stórhvelum þá veit ég að hann er í mjög góðu og þéttu sambandi og hefur kynnt sér málið vel. En í þessu samhengi velti ég fyrir mér hví í ósköpunum menn eru ekki t.d. með kannski tvær byssur um borð, því að það tekur sjö mínútur að lágmarki að endurhlaða þegar skotið geigar og menn hitta ekki alveg í mark. Í þessari skýrslu er nú verið að tala um tímann sem það tekur að deyða dýrið hverju sinni og mér er það alveg hulin ráðgáta hvers vegna það hefur í sjálfu sér ekki komið til tals. Við vorum áðan að bera þetta saman við veiðar á hreindýrum þar sem það er ákveðin vinnuregla að alltaf séu tveir til staðar.

Mér finnst það vera verulega stór þáttur í þessu og ítreka það sem ég sagði áðan, að við eigum að nýta þær auðlindir sem við höfum aðgang að og eigum sömuleiðis að gæta jafnvægis í lífríkinu. Ég get engan veginn skilið, eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu um mikilvægi vistkerfi sjávar — það á kannski eitthvað allt annað við í hafinu kringum landið en á landi og ég þekki þá auðlindanýtingu nokkuð vel og hvernig hún fer fram. Þar þarf að gæta jafnvægis og reyna að halda því á öllum sviðum.

Það er áhugaverður kafli sem snýr að kolefnisbindingunni. Vissulega er hér um gríðarlega stórar skepnur að ræða en ég veit ekki betur en að allar skepnur bindi kolefni á vissan hátt (Gripið fram í.) og skepnur losa líka kolefni. Ég geri mér líka grein fyrir því að hvalur er einmagadýr en ekki jórturdýr þannig að losunin er sennilega töluvert önnur hvað það varðar. En hér finnst mér spurningum vera ósvarað um bindingu og losun í þessu samhengi, sem ég þekki ekki og kemur í sjálfu sér ekki fram. Það kemur bara fram varðandi bindinguna og við vitum það að allar skepnur binda kolefni en sömuleiðis losa þær líka. Það kemur ekkert fram í greinargerðinni um losunina og það getur vel verið að það gæti misskilnings hjá mér í þessu samhengi og ég hafi ekki tekið nógu vel eftir ræðu hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar. Það getur vel verið að hann hafi komið inn á það í sinni góðu framsögu.

Varðandi efnahags- og viðskiptasambönd þá kemur fram í greinargerðinni að þetta sé svo sem ekki efnahagslega mikilvægt fyrir Íslendinga og það hefur komið fram í skýrslum sömuleiðis að það hefur ekki bein áhrif á heildarafkomu ríkissjóðs Íslands hvort menn eru að veiða þetta eða ekki. En þetta hefur mikil efnahagsleg áhrif fyrir þá einstaklinga sem vinna við hvalinn og við þekkjum öll umræðuna sem var hér í vor. Ætli það séu ekki um 120–140 manns sem hafa atvinnu af hvalskurði og hvalveiðum og öllu sem því fylgir? Vissulega hefur þetta efnahagsleg áhrif, í stóra samhenginu kannski engin til þess að taka kollsteypu yfir en það er ákveðið atvinnufrelsi sömuleiðis og það er mikilvægt. Það er réttur okkar að nýta þær auðlindir sem við höfum aðgang að á sjálfbæran hátt og að sjálfsögðu með velferð dýra í huga. Velferð dýra á ávallt að vera númer eitt, tvö og þrjú.

Hér hefur aðeins verið tekist á um álit sérfræðinga í þessu máli. Ég get alveg tekið undir að það eru margir sérfræðingar sem hafa komið fram og fyrir mig sem leikmann í þessu máli þá finnst mér vera ansi snúið að fara í gegnum þann aragrúa af álitum sérfræðinga héðan og þaðan úr heiminum sem stangast á um alla skapaða hluti þegar kemur að þessu. Menn benda í sitt hvora áttina í mörgum tilfellum í hverju sem er þegar kemur að þessu. En við erum með ákveðinn feril í gegnum Alþjóðahvalveiðiráðið sem við höfum stuðst við í gegnum árin. Við eigum að horfa til þess sömuleiðis og taka mark á því. Því miður verður það oft þannig í þessu samhengi að þær upplýsingar sem við erum að fara með eru oft og tíðum villandi og það er ekki mitt að dæma um hvað er rétt og rangt í því, því að ég held að yfirleitt sé það nú þannig að allir geti haft rétt fyrir sér ef þeir geta rökstutt sína skoðun á sannfærandi hátt og vísað til gagna. Ég efa það ekki að þessir sérfræðingar hafa gert það, en það er bagalegt þegar við erum að ræða um málefni sem þetta að við höfum ekki nægileg gögn til að benda á. Ég held að það eigi sömuleiðis við um rafskutulinn sem hv. þingmenn Jón Gunnarsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir skiptust á skoðunum um hér áðan.

Frú forseti. Að svo sögðu held ég að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur að taka þessa umræðu. Það verður líka áhugavert að ræða þetta þegar nær dregur áramótum. Þá þarf að fara í ákveðna naflaskoðun á því hvort þessu verði haldið áfram eða ekki. En ég undirstrika mikilvægi þess og fagna því að málið sé komið hér inn í þingsal og við séum farin að ræða það okkar á milli. Það ber að þakka og vil ég koma þökkum til hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar. Við tökum ekki ákvarðanir einungis út frá tilfinningum og hjartanu, það er bara ekki hægt. Við þurfum að hafa rök og við þurfum að skiptast á skoðunum og ræða þetta. Ég hef trú á því að þótt við séum á öndverðri skoðun, sem er bara eðlilegt, þá sé það af hinu góða því að ég trúi að við getum rætt okkur að niðurstöðu þegar fram í sækir.