154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

bann við hvalveiðum.

99. mál
[14:29]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og mér heyrist við vera á mjög svipuðum slóðum hvað þetta varðar, af því að þarna erum við bara að ræða þennan afmarkaða þátt sem lýtur að velferð skepnanna og/eða getunni með þeirri tækni og þeim tólum og tækjum til að tryggja að dauðastríð skepnu, hvals, hreindýrs og/eða kindar í sláturhúsi, gangi hratt og örugglega yfir og eins sársaukalítið og mögulegt er. En það er þetta með viðmiðið, hv. þingmaður og virðulegi forseti, og hvernig við förum að því að setja þetta viðmið. Við erum einhverju nær um það hvernig framkvæmdin á veiðum á stórhvelum er, þökk sé myndavélaeftirliti sem var innleitt með reglugerðarbreytingu síðastliðið sumar, en að sama skapi eigum við afar erfitt með að átta okkur á henni í samanburði við til að mynda aðrar þjóðir sem eru að veiða, vegna þess að það eru bara afar fáar þjóðir í heiminum sem stunda þetta. Það er ekki mikil framþróun í þessum veiðum eðli málsins samkvæmt því að það eru afskaplega fáir aðilar sem leggja stund á þær.

Í ljósi þessa langar mig að lokum að spyrja hv. þingmann: Telur hann það geta verið rök, af því að mér heyrist við vera sammála um uppleggið, að þegar við búum ekki yfir nægilega mikilli vísindalegri vissu fái skepnan í þessu tilfelli að njóta vafans? Þar er ég að vísa til orðalags í varúðarreglunni sem er ein af meginreglum umhverfisréttarins. Þegar við búum ekki yfir vísindalegri vissu þá getum við heldur ekki tekið ákvörðun án þess að vita hvaða afleiðingar hún hefur, svo sem að halda hvalveiðum áfram.