154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

skráning og bókhald kolefnisbindingar í landi.

46. mál
[16:21]
Horfa

Flm. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um skráningu og bókhald kolefnisbindingar í landi. Flutningsmenn tillögunnar, auk þeirrar sem hér stendur, eru þau Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Hanna Katrín Friðriksson og Þórunn Sveinbjarnardóttir.

Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela matvælaráðherra að skýra reglur um skráningu og bókhald kolefnisbindingar í landi og önnur þau atriði sem landeigendur þurfa að taka tillit til þegar þeir selja kolefniseiningar eða nýta þær til kolefnisjöfnunar í eigin rekstri.

Matvælaráðherra skili Alþingi greinargerð um skráningu og bókhald kolefnisbindingar í landi eigi síðar en 1. febrúar 2024.“

Tillagan gengur með öðrum orðum út á það að dregnar verði saman á einn stað úr hinu ýmsa regluverki einhvers konar leiðbeiningar stjórnvalda um það hvernig landeigendur geta staðið að vinnu við kolefnisbindingu í landi þannig að hún uppfylli þær reglur sem gerðar eru kröfur um til að hægt sé að nota kolefnisbindingu til einhvers konar jöfnunar í bókhaldi.

Það er að mörgu að hyggja hjá þeim sem vilja nota land til að binda kolefni eða að fara markvisst í að draga úr losun kolefnis frá landi og eitt af því er að standa rétt að málum til þess að hægt sé að skrá kolefnisbókhaldið í samræmi við innlendar og alþjóðlegar reglur. Það er auðvelt að rökstyðja það að óljósar upplýsingar um regluverkið eins og það er núna og skortur á leiðbeiningum standi kolefnisbindingu á Íslandi fyrir þrifum. Það bæði skapar hindranir fyrir þá sem ráða yfir landi þannig að þeir geti þróað áfram sín verkefni og eins eru hindranir fyrir þá sem vilja kaupa kolefnisbindingu eða að leggja fram fjármagn til kolefnisbindingar á móti einhvers konar losun sem starfsemi þeirra stendur fyrir. Það er mikilvægt að þarna veiti stjórnvöld leiðsögn.

En að tillögunni sjálfri og ætla ég að fara yfir ákveðin atriði úr greinargerðinni. Tillagan var lögð fram á 153. löggjafarþingi, síðasta þingi, í fyrsta skipti og er nú endurflutt nánast óbreytt. Markmiðið með tillögunni er að vinna gegn loftslagsbreytingum með því að skýra þá umgjörð sem bændur og umráðamenn lands þurfa að virða og uppfylla við kolefnisbindingu í landi. Ein af mikilvægum forsendum þess er að ljóst sé hvernig standa skal að skráningu og bókhaldi kolefnisbindingar þannig að þeir sem þess óska geti annaðhvort selt kolefniseiningar á frjálsum markaði eða fengið þær viðurkenndar við kolefnisjöfnun eigin rekstrar í bókhaldi sínu, grænu bókhaldi einhvers konar.

Til að vinna gegn loftslagsbreytingum af völdum gróðurhúsalofttegunda og til að uppfylla markmið Íslands í loftslagsmálum þarf að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda úr landi og nota land til að binda kolefni þar sem það á við. Margir bændur og aðrir umráðamenn lands eru tilbúnir til að nota hluta af því landi sem þeir hafa yfir að ráða til að binda kolefni og oft er raunar hægt að samþætta kolefnisbindingu og önnur landnýtingarmarkmið, svo sem ræktun skóga til viðarframleiðslu, skjóls og beitar.

Kolefnisbinding í landi er langtímafjárfesting sem bæði bindur landnýtingu og fjármagn til fjölda ára. Því er mikilvægt að leikreglur séu skýrar. Leiðsögn stjórnvalda í þessum málum er á margan hátt óskýr eins og er, t.d. að því er varðar samspil kolefniseininga sem seldar eru á frjálsum markaði og loftslagsbókhalds Íslands, mat á kolefniseiningum til kolefnisjöfnunar eigin rekstrar og mat á kolefniseiningum þar sem markmið ræktunar eru fleiri en binding kolefnis.

Í því ljósi leggja flutningsmenn til að matvælaráðherra verði falið að skýra reglur um skráningu og bókhald kolefnisbindingar í landi og önnur þau atriði sem landeigendur þurfa að taka tillit til þegar þeir selja kolefniseiningar eða nýta þær til kolefnisjöfnunar í eigin rekstri.

Áður en lengra er haldið er kannski rétt að geta þess að ein kolefniseining samsvarar einu tonni af koltvísýringi sem getur verið bundið í gróðri eða í jarðvegi og þannig getur jöfnunin annaðhvort falist í nýrri bindingu eða því að komið sé í veg fyrir að koltvísýringur eða kolefni losni úr landi eða gróðri.

Umráðamenn lands horfa til þess að nýta eigið land til kolefnisjöfnunar rekstrar í bókhaldi sínu en margir bændur hafa raunar lengi unnið markvisst að kolefnisjöfnun búrekstrar. Undanfarin ár hafa ýmis fyrirtæki fjárfest í landi til þess að búa til tækifæri til kolefnisjöfnunar á móti öðrum rekstri á ólíkum sviðum, svo sem vélaverktöku, sjávarútvegi eða verslun. Ekki virðist ljóst hvernig rekstraraðilar geta gert grein fyrir kolefnisjöfnun eigin rekstrar á landi sem þeir hafa til umráða. Þá er að mörgu leyti óljóst hvaða kröfur eru gerðar til vottunar slíkrar bindingar.

Forsendur fyrir viðskiptum með kolefnisbindingu á valkvæðum og frjálsum markaði eru að vottunarkerfi séu til staðar, að kolefniseiningar séu skráðar í viðurkennda gagnagrunna og viðurkennd vottunarstofa votti seldar einingar og mæli og staðfesti bindingu í samræmi við áætlanir eftir að ræktunin er farin að skila árangri og að kolefnisbindingin eigi sér stað með nýjum verkefnum, svo sem skógrækt, sem ekki hefði verið ráðist í nema með það að markmiði að binda kolefni.

Varðandi þetta atriði, á meðan umgjörðin er óljós, þá held ég að margir bíði með að hefja ný kolefnisbindingarverkefni ef það er ekki fullkomlega ljóst frá upphafi hvort það muni uppfylla kröfur um kolefnisbindingu á markaði. Meðan stjórnvöld veita ekki betri leiðbeiningar í dag þá fara færri verkefni af stað heldur en ella. Hér á landi hefur verið boðið upp á einfaldari leiðir en vottaðar einingar til kolefnisjöfnunar en ýmislegt bendir til þess að þau verkefni muni þróast yfir í vottuð verkefni. Samhliða því að leikreglur um kolefnisbókhald verði skýrðar gæti þurft að endurskoða samstarf ríkisins við bændur og fjölga leiðum til samstarfs, t.d. þannig að þeir sem vilja geti ræktað skóga með minni ríkisstuðningi en nú er í skógræktarverkefnunum sem eru samstarfsverkefni ríkis og bænda. Það mætti hugsa sér nýja tegund af samstarfi þar sem hugsanlega kæmu inn styrkir til þess að hefja ræktunina en síðan gæti skógræktin farið inn á frjálsan markaðinn og bændur selt kolefniseiningar. En til þess að þetta geti orðið þarf að fara í ákveðnar greiningar á því hvort viðskipti með kolefniseiningar geti staðið undir grunnfjármögnun skógræktar hjá bændum og landeigendum í framtíðinni.

Það hefur verið farið í ákveðnar breytingar til að hvetja til skógræktar og í ársbyrjun 2021 tóku gildi breytingar á lögum um tekjuskatt sem ættu að freista lögaðila. Samkvæmt þeim má nota allt að 0,85% árstekna til kolefnisjöfnunar án tekjuskattsgreiðslu fyrir yfirstandandi ár þegar framlögin eru greidd. Þetta á við um aðgerðir í rekstri til kolefnisjöfnunar lögaðilans og um fjárframlög til skógræktar, uppgræðslu og endurheimtar votlendis. Þetta var mjög gott skref en framgangur þess gæti einmitt ráðist af því hvaða reglur og leiðbeiningar verða settar um mat á kolefniseiningunum.

Frá því að tillagan var fyrst lögð fram fyrir tæpu ári síðan barst mér svar frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn um samspil kolefnisbókhalds innan lands og alþjóðlega bókhaldsins og satt best að segja þá virðist mér ýmislegt óskýrt í þeim efnum. En í svarinu kom fram að ákveðið hefur verið að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra skipi starfshóp sem falið verði að leggja mat á möguleika og áskoranir varðandi þátttöku íslenskra fyrirtækja og ríkisstofnana á alþjóðlegum kolefnismörkuðum. Ég held að þetta sé mjög brýnt mál og vil hvetja hæstv. ráðherra til að halda áfram á þeim vettvangi en tel á sama hátt mjög mikilvægt að matvælaráðherra skýri reglurnar og veiti leiðbeiningar til þeirra sem fara með umráð yfir landi.

Þá var einnig í ágúst síðastliðnum haldin ráðstefna á vegum Lagastofnunar Háskóla Íslands um kolefnismarkaði og tengsl þeirra við löggjöf og stefnumótun um loftslagsmál og þar voru til grundvallar spurningar eins og hvaða hlutverki kolefnismarkaðir gegna í loftslagsaðgerðum og hvernig þeir tengjast skuldbindingum, löggjöf og stefnumótun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum og hvaða reglur gilda um viðskipti með kolefniseiningar og kolefnisjöfnun. Í stuttu máli má segja að mjög margt gagnlegt kom fram á þessari ráðstefnu en jafnframt var þar staðfest að það er allt of margt óljóst um regluverkið og hvernig landnotendur jafnt sem þeir sem vilja kaupa kolefnisjöfnun eiga að haga sér á kolefnismarkaðnum. Það sé mikilvægt að það séu skýrar reglur sem tryggi traust og trúverðugleika og eftirlit og það sé samræmi í reglunum sem snúa að þeim sem hafa land til umráða, þ.e. þeim sem búa til kolefniseiningarnar, og þeim sem hafa áhuga á að kaupa einingarnar og telja þær fram í sínu bókhaldi. Og svo, eins og tillagan gengur út á, þá snýst þetta líka um reglurnar gagnvart þeim sem vilja sjálfir nota þær einingar sem þeir framleiða.

Vil ég bara ítreka það að lokum að það er mjög mikilvægt að skýra lagaumhverfið og leiðbeiningar í því lagaumhverfi sem þó er til staðar núna og alþjóðlega regluverki þannig að þeir sem vilja vinna á þessum markaði feti sig réttu leiðina strax frá upphafi. Og auðvitað er það mjög mikilvægt að bændur geti nýtt það kolefni sem þeir binda til jöfnunar í eigin rekstri, hvernig svo sem þau verkefni eru til komin í upphafi.