154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

skipun starfshóps um umönnun og geymslu líka.

122. mál
[16:40]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langaði að koma hér örstutt til að hafa nokkur orð um þessa tillögu um skipun starfshóps um umönnun og geymslu líka. Þetta er tillaga sem ég er meðflutningsmaður á og styð heils hugar. Mig langar eiginlega bara að lýsa þessum aðstæðum og þeim breytingum sem hafa orðið.

Á 152. þingi lagði ég fram fyrirspurn til þriggja ráðherra um líkgeymslur. Það er skemmst frá því að segja að af þeim svörum sem þar bárust er ljóst að hvergi liggur fyrir nein heildaryfirsýn um hvar er aðgangur að líkgeymslum í landinu og hvar ekki. Á Austurlandi, þar sem ég þekki best til, háttar víða þannig til að félagasamtök, kvenfélög, björgunarsveitir eða önnur samtök sem vinna samfélögunum í haginn höfðu gefið líkgeymslur sem eru staðsettar í hjúkrunarheimilum, í heilbrigðisstofnunum, jafnvel björgunarsveitarhúsum. Þarna var í öllum tilfellum vel búið að þessari aðstöðu í upphafi en eftir því sem samgöngur batna og heilbrigðisstofnanir hafa sameinast frá því að vera stakar einingar í hverjum firði og orðið ein stór heilbrigðisstofnun á Austurlandi og ein heilbrigðisstofnun fyrir Norðurland, eftir því sem þessar sameiningar verða breytast þarfirnar og það kannski þarf ekki líkgeymslu í hverjum þéttbýliskjarna. Síðan bilar eitthvað eða húsnæðið gengur úr sér og þá er ekki endilega ljóst hver á líkgeymsluna, hverjum ber að viðhalda henni eða yfir höfuð hvort það er einhver sem ber ábyrgð á húsnæðinu, einhver stofnun sem enn er starfandi. Það hafa komið upp ýmsir vinklar á þessum málum sem bitna síðan á þeim sem þurfa að nýta sér þessa aðstöðu, aðstandendum látinna. Þannig að ég tel mjög mikilvægt mál að skýra það hvernig viljum við haga þessum málum til framtíðar þannig að sómi verði að.