154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

valkostir við íslensku krónuna.

[13:39]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Núna fyrir helgi stigu forkólfar innan verkalýðshreyfingarinnar hér á landi fram og settu málefni krónunnar á dagskrá. Þetta eru auðvitað ákveðin tíðindi og skilaboð verkalýðshreyfingarinnar eru sterk, enda eru hagsmunir launþega og hagsmunir heimilanna undir, sem verkalýðshreyfingin er náttúrlega í beinu og góðu og sterku sambandi við, enda vitum við að heimilin róa núna mjög þungan róður í ölduróti vaxta og verðbólgu. Það má segja að til að mynda Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS, hafi stungið á ákveðnu kýli óréttlætis og ójafnréttis í íslensku samfélagi.

Ég veit að hæstv. ráðherra hefur líkt og Viðreisn haft mikinn áhuga á því risastóra verkefni okkar allra að koma böndum á verðbólguna og ná vaxtastiginu niður. Það má líka segja að hæstv. ráðherra hafi verið kannski sá ráðherra sem helst hefur viðurkennt það að krónan er einmitt ákveðin áskorun, eins og hún hefur m.a. sagt. Ef við skoðum íslenska hagsögu þá er nokkuð víst að við getum stundum náð tökum á stöðunni, það geta komið nokkur góð ár en síðan kemur höggið, aftur og aftur. Þessi staða birtist okkur ekki bara aftur og aftur heldur hjá kynslóð eftir kynslóð. Á endanum eru það alltaf heimilin í landinu og litlu og meðalstóru fyrirtækin sem þurfa að borga brúsann af þeim herkostnaði sem fylgir íslensku krónunni.

Ég veit að hæstv. ráðherra fer víða og hittir fólk. Ég var í Skagafirði núna um helgina og fyrir norðan þar sem ég var að tala við bændur sem eru búnir að vera að fjárfesta og þeir eru að fara úr því að borga 4% vexti í 12%. Þetta er nákvæmlega sama staðan og heimilin í landinu eru í þar sem afborganir hafa farið úr 150.000 kr. í tæplega 400.000 kr. Það er verið að leggja miklar byrðar og mikla bagga á herðar fólks, á heimilin í landinu. (Forseti hringir.) Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún sé tilbúin að grípa þennan bolta sem Vilhjálmur Birgisson kastaði á loft (Forseti hringir.) og til í þetta samtal, til í það að meta stöðuna, fyrir heimilin í landinu, fyrir okkar samfélag, hvaða valkostir eru í boði, aðrir en íslenska krónan.