154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

endurskoðun viðurlaga vegna vændiskaupa.

[14:09]
Horfa

Brynhildur Björnsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Brot sem ljúka má með lögreglustjórasekt: Fara yfir á rauðu ljósi, stela farsíma úr búð, smygla Gamle Ole til landsins og kaupa sig fram hjá samþykki til kynferðislegra athafna. Vændiskaup eru ein af alvarlegustu tegundum kynferðisofbeldis, sé tekið tillit til afleiðinga fyrir brotaþola. Rannsókn Stígamóta sem kynnt var í fyrra sýnir að brotaþolar vændis eru mun líklegri til að þjást af áfallastreitu og þunglyndi og gera tilraun til sjálfsvígs en aðrir sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi, sem eru svo aftur mun líklegri til alls þessa en fólk sem ekki hefur verið brotið á kynferðislega. Hámarksrefsing við nauðgun og öðrum grófum kynferðisbrotum er 16 ára fangelsi. Samkvæmt 206. gr. íslenskra hegningarlaga eru vændiskaup kynferðisbrot. Það skýtur því skökku við, virðulegi forseti, að vændiskaup teljist til brota sem ljúka má með lögreglustjórasekt.

Afleiðingar vændis eru ekki einkamál þolenda þess. Stærstur hluti þeirra sem verða fyrir vændi eru heimilislausar konur, konur með þroskaskerðingu, konur í neyslu og fátækar konur sem eiga erfitt með að sjá sér og börnum sínum farborða; hópar sem samfélaginu ber að vernda gegn misnotkun í skjóli valdamismunar. Þessi léttvægu viðurlög verða til þess að vændiskaupamál lenda oftar en ekki aftast í forgangsröðinni þegar kemur að rannsóknum lögreglu. Nafnleynd sú sem vændiskaupendur hafa notið í réttarkerfinu gefur síðan til kynna að dómstólum þyki vændiskaup alvarlegri og skammarlegri glæpur en viðurlög kveða á um. Það gefur því augaleið, virðulegur forseti, að endurskoða beri refsingu fyrir vændiskaup.

Mig langar því að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvort hún telji rétt að gerðar verði breytingar á refsirammanum í vændiskaupamálum og ef svo er, hvernig hún sjái slíkar breytingar fyrir sér.