154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2024--2038 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

182. mál
[14:49]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að ég á aðeins erfitt með að skilja spurningu hv. þingmanns. Ef hann er að fjalla um húsnæðisstefnuna þá hefur hún verið boðuð og birtist hér í næsta mánuði, og hefur talsvert mikil áhersla verið lögð á hana. Þar er verið að leggja til uppbyggingu um allt land. Ef hv. þingmaður er að vísa til þess að í rammasamkomulagi ríkis og sveitarfélaga frá síðasta ári, og síðan í samkomulagi sem var gert við Reykjavíkurborg, sem tvöfaldaði þann íbúðafjölda sem ætlað var að byggja á hverju ári úr 1.000 íbúðum í 2.000 af þessu 3.500 íbúða lágmarki sem þarf að byggja, eða allt að 4.000 — þá sér náttúrlega hv. þingmaður að ef öll hin sveitarfélögin koma að þá er stuðullinn auðvitað frekar að lækka á Reykjavíkursvæðinu, í höfuðborginni. Ef hv. þingmaður ber saman hvar hefur verið byggt mest á síðustu árum þá veit hv. þingmaður að það er ekki í Reykjavík. Ég skil því ekki alveg spurninguna. En stefnan er að koma fram og við höfum rætt hana talsvert. Sumum finnst við hafa rætt hana of mikið. Ég met það greinilega svo samkvæmt spurningu hv. þingmanns að við höfum ekki rætt hana nægjanlega oft og þurfum að koma henni betur á framfæri og munum gera það. Þar er algjört markmið að byggja upp á öllu landinu. Það er staðreynd að aldrei hafa fleiri búið á landsbyggðinni en í dag. Þar er eftirspurn eftir húsnæði, verið er að svara því og við höfum verið að byggja á síðustu árum. En ef við tökum t.d. kragann fyrir utan höfuðborgarsvæðið, þ.e. Akranes, Suðurnesin og Árborgarsvæðið, hefur hvergi verið eins mikill vöxtur og byggt eins mikið af íbúðum eins og einmitt þar en ekki á höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna var svo mikilvægt að Reykjavíkurborg kæmi með samninginn um 2.000 íbúðir á ári næstu árin innan þessa rammasamkomulags. Þá munum við ná þessum markmiðum um 3.500 íbúðir að lágmarki og helst 4.000.