154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2024--2038 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

182. mál
[15:05]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F):

Virðulegur forseti. Mig langar að ræða það mál sem hér er á dagskrá sem er tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2024–2038 og aðgerðaáætlun fyrir 2024–2028. Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra hér áðan þá var ég hluti af þeim hópi sem var að vinna að þessari skýrslu þannig að mér ber nú hálfgerð skylda til að koma hér upp og fjalla aðeins um hana enda gríðarlega mikilvægt plagg. Ég vil sömuleiðis taka undir með hæstv. ráðherra og þakka fyrir þá vinnu og það samstarf sem nefndin átti við bæði ráðuneytið og starfsmenn ráðuneytisins, sveitarfélögin og hagaðila um allt land.

Með lögum nr. 53/2018 var bætt við sveitarstjórnarlögin ákvæði um gerð stefnumótandi áætlunar ríkisins í málefnum sveitarfélaga. Samkvæmt þeirri áætlun skal ráðherra málaflokksins leggja a.m.k. á þriggja ára fresti fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga til 15 ára í senn og aðgerðaáætlun til næstu fimm ára. Þetta er nýmæli og er hliðstætt annarri áætlanagerð á verksviði innviðaráðuneytisins.

Meginmarkmiðið í þessari stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga er að draga saman meginþætti langtímastefnumörkunar ríkisins í þeim málaflokkum sem snúa að verkefnum sveitarfélaga og stuðla að samræmingu í stefnumótun ríkis og sveitarfélaga á þeim sviðum.

Í þessari vinnu og við undirbúninginn á þessari tillögu til þingsályktunar var farið í víðtækt samráð um þessa áætlun og rík áhersla lögð á gott samráð við íbúa og sveitarstjórnir og aðra hagaðila og hagsmunaaðila um allt land. Þétt samtal og samráð var við fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga allt starfsferlið og áttu þeir fulltrúa við borðið í þessari nefnd eins og áður hefur komið fram.

Verkefnið byrjaði með svokallaðri grænbók um stöðu og valkosti í sveitarstjórnarmálum þar sem sameiginlegir spurningalistar voru lagðir fyrir sveitarfélög um allt land þar sem staðan og áskoranir og tækifæri sveitarfélaganna voru kortlögð, m.a. skipulags- og húsnæðismál, og var þetta gert sumarið 2022. Það var mjög góð svörun í því og ég held að 35 af 64 sveitarfélögum hafi skilað inn. Með sama hætti var leitað eftir sjónarmiðum sveitarstjórnarfólks, íbúa og annarra hagaðila gagnvart öðrum málaflokkum ráðuneytisins á samtals átta samráðsfundum undir yfirskriftinni Vörðum leiðina. Þetta var sömuleiðis gert í október 2022.

Síðan kom að því að gera hvítbókina og í því fólst könnun m.a. á viðhorfi ungs fólks á aldrinum 16 ára til tvítugs og var það Maskína sem framkvæmdi þá könnun í upphafi árs 2023. Niðurstaðan er mjög áhugaverð, sem mér finnst vert að vekja athygli á hér, og er varðandi atvinnumöguleika og hvað atvinnumöguleikar skipta miklu máli við val á búsetu. Þessi aldurshópur metur það sem svo eða um 85,9% af þeim sem svöruðu sögðu að atvinnumöguleikar myndu skipta mestu um hvar þeir staðsetja sig í framtíðinni.

Það er sömuleiðis talað í þessari skýrslu og þessari þingsályktunartillögu um störf án staðsetningar og mikilvægi þess að ríkið deili störfum um allt land. Ég fagna því og tek heils hugar undir þá hugmyndafræði að reyna að dreifa opinberum störfum eins mikið og hægt er um allt land. Það er mjög áhugaverð tafla sem kemur hér fram og kom í umsögn Samtaka atvinnulífsins þar sem hlutfall stöðugilda opinberra starfa er brotið niður á íbúafjölda á landsvísu miðað við landshluta og kemur fram að á höfuðborgarsvæðinu, þar sem 64,6% íbúa landsins búa, eru um 71,6% stöðugilda ríkisins. Þannig að það er alveg klárt að við getum gert betur þar og ég held að það séu mikil tækifæri í því fólgin að reyna að færa opinber störf út á land sem yrði alveg gríðarleg styrking fyrir landsbyggðirnar allar.

Ég vil líka aðeins vekja athygli á því sem ég hef nú rætt töluvert oft í þessum ræðustól í samhengi við þessi störf án staðsetningar en ég held að það sé mjög áhugavert og vert að skoða fyrir opinbera, sérstaklega þegar við erum að horfa á svæði eins og brothættar byggðir og önnur svæði sem eiga undir högg að sækja, að ríkið skoði það að auglýsa störf með staðsetningu þar sem við erum í raun og veru að loka fyrir þann möguleika að þeir einstaklingar sem ráðast til þessara starfa geti síðan farið með störfin eitthvert annað. Störfin séu þannig klárlega byggðafesta fyrir það samfélag þar sem þau voru auglýst í upphafi.

Varðandi samráð í vinnu við grænbókina og hins vegar hvítbókina var það 2022–2023, endaði 4. janúar, og eftir að starfshópurinn um stefnu og aðgerðaáætlun í málefnum sveitarfélaga hafði dregið saman stefnu og aðgerðaáætlun stjórnvalda í málaflokknum út úr grænbókinni fór fram enn og aftur opið samráð um drög að stefnuskjali hvítbókar 17. mars til 14. apríl 2023.

Mig langar að fara aðeins yfir þær umsagnir og athugasemdir sem nefndin fékk. Eins og hæstv. innviðaráðherra kom inn á áðan komu umsagnir frá nokkrum litlum sveitarfélögum sem gerðu athugasemdir, t.d. Grýtubakkahreppur sem gerði athugasemdir við það að við værum að stuðla að sameiningu fámennra sveitarfélaga. Í því samhengi langar mig að vísa til stefnu ríkisstjórnarinnar um sameiningar sveitarfélaga og gildandi ríkisstjórnarsáttmála sem segir að ríkisstjórnin leggi áherslu á að stuðla að uppbyggingu öflugra og sjálfbærra sveitarfélaga þar sem samfélagslegir og fjárhagslegir hvatar eru til sameiningar. Með sama hætti er bent á yfirlýst markmið ríkisvaldsins í sveitarstjórnarlögum um að stuðla að sjálfbærni sveitarfélaga og getu þeirra til að annast lögbundin verkefni með því að stefna að 1.000 íbúa lágmarki í hverju sveitarfélagi. Grímsnes- og Grafningshreppur vildi fá betri skilgreiningu á hugtakinu búsetufrelsi og það var tekið tillit til þeirra athugasemda í þeirri þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir. Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp komu sömuleiðis með áherslur sem skiluðu sér inn í þessa tillögu sem hér er. Viðskiptaráðið og Samtök atvinnulífsins lögðu áherslu á að sveitarfélögin í landinu væru fær um að veita íbúunum grunnþjónustu, stuðla að umbótum í þjónustu við börn og barnafjölskyldur og það er akkúrat grunnstefið í þessari tillögu að sveitarfélögin séu í stakk búin til að veita þá þjónustu sem kallað er eftir og íbúar á hverju svæði eiga rétt á lögum samkvæmt.

Og það er náttúrlega, virðulegur forseti, stóra málið í þessu, að gera sveitarfélögin þannig að þau geti veitt íbúum þá þjónustu sem íbúarnir eiga rétt á. Það er stóra málið í sveitarstjórnarmálunum í dag að mínu viti. Því miður er það þannig að það eru ekki öll sveitarfélög sem eru þar.

Ég er að renna út á tíma en mig hefði langað að fara aðeins yfir þessar áætlanir allar saman og þessi verkefni sem hér eru, sem eru 18 talsins og eru mjög metnaðarfull en ég sé að ég hef ekki tíma í það allt saman, það verður að bíða betri tíma. Hins vegar langar mig að segja hér að endingu að ég fagna þeirri breytingu sem við náðum að koma í gegn við vinnu þessarar þingsályktunartillögu því í fyrri áætlunum var eingöngu um verkefni innviðaráðuneytisins að ræða. Það var eingöngu verkefni þess ráðuneytis sem voru undir í þessari stefnumörkunaráætlun. Hins vegar náðum við núna, sem er mjög jákvætt, að draga fleiri ráðuneyti að. Það er alveg ljóst að (Forseti hringir.) hagsmunamál sveitarfélaganna eiga heima í miklu fleiri ráðuneytum heldur en innviðaráðuneytinu. Ég hlakka til að taka umræðu um þessa þingsályktunartillögu núna í haust.