154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2024--2038 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

182. mál
[15:27]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar. Við skulum nú fyrst hafa í huga að þessi meðaltöl um hvað við framleiðum mikið á mann segja ekki mikið um stöðuna þar sem við erum mjög fámenn þjóð í risastóru landi. Það að svona fámenn þjóð geti átt svona öfluga orkuinnviði eins og við eigum nú þegar, það er bara ein ástæða fyrir því og það er að við gerðum orkusamninga við stóriðjuna. Þannig borgaði stóriðjan virkjanirnar okkar og flutningskerfi raforku. Við gætum ekki búið við svona gott orkuumhverfi nema hafa gert þetta. Þetta kallast að þjóð sé að nýta auðlindir sínar til þess að byggja upp velferð fyrir sitt samfélag.

Það sem ég er að segja hér, með því að virkja meira, er að hafa þá þennan iðnað sem hefur farið í gegnum orkuskipti. Stóriðjan sem starfar á Íslandi hefur klárlega klárað sín orkuskipti miðað við sambærilega stóriðju í öðrum löndum. Það sem við munum bæta við með frekari orkuöflun er til þess að halda áfram að nýta auðlindir okkar og byggja upp okkar velferð og það er mest fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki, hvort sem þau eru í tæknigeiranum, laxeldi, þörungaræktun, ferðaþjónustu og svo mætti lengi telja, en þau eru öll að kalla eftir 10–30 mW. Það er það sem við viljum halda áfram með.

Við erum enn þá að nota helling af jarðefnaeldsneyti þrátt fyrir þá miklu orkuframleiðslu sem er hér í landinu og það verður áfram gert nema við framleiðum einhvers konar aðra orku í eldsneytisgjafa, eins og vetni sem við þurfum þá að geta flutt út og flutt annað inn til landsins ef við ætlum að fara í full orkuskipti hér á landi.