154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2024--2038 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

182. mál
[15:32]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst ég vera komin inn í umræðu um hvort við eigum að reyna að láta alla hafa það betra eða gera alla jafn fátæka. Ég held að það sé skynsamlegast fyrir okkur sem litla þjóð í stóru landi, eyþjóð, að halda áfram að nýta öll þau tækifæri sem við getum til að nýta auðlindirnar okkar betur með því að auka framleiðsluna, án þess að ganga á náttúruna, að sjálfsögðu. Við erum frekar að hjálpar náttúrunni með aukinni orkuöflun. Hlutfallið lagast náttúrlega ef við fjölgum stoðunum. Ef við náum að byggja upp fleiri öflugar stoðir í atvinnulífinu þá lagast það hlutfall sem hv. þingmaður hefur svo miklar áhyggjur af, í staðinn fyrir að byggja nýjar stoðir og taka þá aðrar sem hafa hjálpað okkur. Stóriðjustoðin hefur að sjálfsögðu hjálpað okkur í okkar efnahag að halda stöðugleikanum, verið mjög kærkomin stoð við hliðina sjávarútveginum. Svo kemur ferðaþjónustan þar líka og við erum að byggja upp Hugverkastofuna núna. Svo þurfum við bara að halda áfram. Ég held og trúi því að orkuöflun, sem getur verið á mjög fjölbreyttan hátt eins og hv. þingmaður kom réttilega inn á, sé það mikilvægasta. Þá náttúrlega fjölgar stoðunum og vægi hverrar stoðar minnkar í staðinn fyrir að við förum að draga úr þeim stoðum sem við þó höfum náð að byggja upp. Það yrði nú algerlega til að pissa í skóinn sinn.