154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2024--2038 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

182. mál
[15:38]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég þakka honum líka alveg sérstaklega mikið fyrir að útskýra fyrir mér hvað orkugjafar eru og hvernig við erum með mismunandi orkugjafa hér á landi. Hvað varðar aukna orkuöflun er þetta náttúrlega líka samspil milli ríkis og sveitarfélaga og það þarf að taka mið af ábendingum sveitarfélaganna þegar kemur að því hvernig við háttum þessum málum og þegar kemur að því að skipta kökunni jafnt á milli þeirra. Nú höfum við alveg séð nokkrar fréttir, bara frá því í vor, þar sem sveitarfélögin eru frekar hávær um að þau vilji ekki meiri orkuinnviðauppbyggingu á sínu svæði, nema það séu lagðar til breytingar sem stuðli að meiri jöfnuði þegar kemur að tekjuöflun af virkjunum.

Ég er að inna hv. þingmann eftir því hvort hann sé hlynntur því að skoða nýjar leiðir til að skattleggja orkuvinnslu hér á landi, t.d. með því að setja á auðlindagjald. Það virðist vera svo að fasteignaskattarnir séu ekki alveg að skila sér beint til samfélaganna. Þeir eru ekki að skila þeim ávinningi sem sveitarfélögin eru að kalla eftir. Ég sá að hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra er að fara að leggja fram fjórða áfanga rammaáætlunar en ég skil ekki hvernig hann getur gert það með góðri samvisku þegar ekki er búið að straumlínulaga alla þessa flöskuhálsa sem eru til staðar í kerfinu, t.d. eins og orkuvinnsluna. Við erum ekki komin með lagaumgjörð í kringum vindorkuna heldur. Við erum bara svolítið frosin þegar kemur að leyfisveitingaferlunum. Svo erum við á hinn bóginn með frekar ósátt sveitarfélög sem hafa mjög mikið vald þegar kemur að skipulagi. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann: Ætlar hv. þingmaður að tala fyrir samþykkt fjórða áfanga rammaáætlunar áður en búið er að skýra alla þessa flöskuhálsa og tafir í kerfinu?