154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

skipulagslög.

183. mál
[16:39]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Nei, ég átta mig ekki alveg á þessu. Þegar verið er að setja reglu um allt að 25% þá er hún í rauninni takmarkandi fyrir hlutfall sem er hærra en 25%. Það er talað um þetta sérstaklega fyrir ný íbúðasvæði og þá veltir maður fyrir sér: Yfir hversu langan tíma? Er það fyrir ákveðna útdeilingu en ekki kannski fyrir hverfið eins og það kemur til með að líta út í heild sinni ef það er gert þar? Væri það fyrir smærri reiti líka og þess háttar? Ef fyrsti áfangi einhvers uppbyggingarverkefnis væri t.d. bara almennar íbúðir mætti heildarkerfið þegar það væri tilbúið mögulega ekki hafa t.d. 100% fermetrafjöldann sem myndi falla undir þetta og afgangurinn síðan fylla upp í það sem væri á almennum markaði ef þetta væri tekið í skrefum. Þannig að ég velti fyrir mér hvort það sé hamlandi þegar sagt er allt að 25%, að þetta loki fyrir möguleika á að hafa hærra hlutfall í einstaka uppbyggingarferlum.

Svo fannst mér svarið við lágmarkinu ekki vera alveg nógu skýrt. Það eru sum sveitarfélög sem eru með ansi fáar almennar íbúðir. Það væri kannski eðlilegt að byrja einhvers staðar með ákveðin lágmörk þar á til þess að það séu ekki bara ákveðin sveitarfélög sem eru félagsleg sveitarfélög og önnur ekki.