154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

skipulagslög.

183. mál
[16:43]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. innviðaráðherra fyrir framsöguna og yfirferðina í þessu máli. Hingað er ég bara kominn til þess að fagna vegna þess að mér finnst þetta mjög mikilvægt og sérstaklega það að hér er um heimildarákvæði að ræða. Orðalag eins og „allt að 25%“ er mikilvægt fyrir sveitarfélögin, þótt við viljum auðvitað sjá sem hæsta prósentu til að byggja fyrir þennan, leyfi ég mér að segja, viðkvæma hóp því að við sjáum það bara að hverfi og staðsetningar eru mismunandi og þetta þarf að geta haldist í hendur við það. Þetta á ekki alls staðar við en á flestum stöðum getur þetta átt við og þess vegna er mjög mikilvægt að sveitarfélög fái þennan sveigjanleika til að vinna með.

En þrátt fyrir að ég fagni þessu, að þetta fari svona skrifað inn í lögin, þá er þetta ekkert nýtt vegna þess að sveitarfélögin hafa verið að vinna með þetta. Hvort sem það er á landi sveitarfélags, oftast, eða einkaaðila þá erum við oft með þessa svokölluðu þéttingarreiti þar sem hefur verið í gangi vinna við gerð deiliskipulags og þar hafa sveitarfélögin verið að vinna með svokölluð samningsmarkmið fyrir þann tiltekna reit. Þau virka þannig að sveitarfélagið sest niður með viðkomandi aðilum og setur sér einhver markmið um það hvernig byggðin á að þróast og hvað eigi að vera á þessum tiltekna reit, það geta verið námsmannaíbúðir, leiguíbúðir eða eitthvað annað slíkt, og það er bara skrifað inn í samning milli sveitarfélags og tiltekins aðila.

Það sem ég er ánægður með að sjá hér er að hérna erum við auðvitað að styrkja samningsstöðu sveitarfélaga. Það er mjög brýnt, hæstv. ráðherra. Þess vegna fagna ég þessu mjög. Einnig fagna ég því að sjá að hér er um almennar íbúðir að ræða en einnig hlutdeildarlánaíbúðir og leiguíbúðir þannig að við erum með þessu að ná til nokkuð breiðs hóps sem brýnt er að eigi kost á því að koma sér þaki yfir höfuðið, sem er ein af grunnþörfum okkar allra.

Ég ætla aðeins að snerta á fleiri atriðum, ég var búinn að yfirstrika eitthvað hérna hjá mér. Ég er kannski að endurtaka mig, en ég ætla að fá að lesa það sem hér kemur fram, með leyfi forseta:

„Með aukinni uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á þéttingarreitum og landi í eigu annarra en sveitarfélaga, þarf að tryggja sveitarfélögum heimildir varðandi blöndun byggðar fyrir ólíka hópa þannig að þau geti uppfyllt skyldur sínar samkvæmt lögum um húsnæðismál.“

Hér kemur að því sama og ég var að segja áðan, sveitarfélögin hafa í þessu verið að notast við samningsmarkmið, hafa verið setjast niður með framkvæmdaraðilum eða lóðarhöfum, og ég þekki það nú bara ágætlega sjálfur, og verið að setja sér markmið og gera samning um hvernig uppbyggingin á að fara fram og þróast og hvað eigi að vera á reitnum. Með þessu máli erum við að styrkja stöðu sveitarfélaga og mér finnst það mjög mikilvægt og brýnt þannig að ég fagna þessu bara ákaft, ég leyfi mér að segja það, frú forseti.

Það er ekki mikið meira um þetta að segja hjá mér en að lokum vil ég samt segja, og ég hef verið að tönnlast á þessu undanfarna mánuði, að við þurfum þessa uppbyggingu. Við þurfum að byggja húsnæði fyrir fólkið. Okkur er að fjölga hratt og ég óttast það mjög að við séum ekki með nægt lóðaframboð á næstu árum. Við sjáum það bara ef við horfum á tölur, alveg sama þó að húsnæðisáætlanir sveitarfélaganna segi okkur annað í dag, að sveitarfélögin Hafnarfjörður og Kópavogur, sérstaklega þessi tvö, eru að verða búin með sínar lóðir. Þegar ég segi lóðir þá er ég að tala um svæði þar sem hægt er að brjóta nýtt land vegna þess að við vitum að þéttingarreitirnir taka mikið lengri tíma í uppbyggingu. Ef við ætlum að ná þessum markmiðum um uppbyggingu á 35.000 íbúðum á næstu tíu árum þá verðum við að fjölga lóðum. Með þessu er ég ekki að segja að það þurfi að kollvarpa hugmyndafræði svæðisskipulagsins á höfuðborgarsvæðinu sem gildir til 2040 vegna þess að hugmyndafræðin og allt sem þar kemur fram er mjög góð. En það verður að vera hægt að taka það skipulag til endurskoðunar þegar forsendur hafa breyst eins og þær hafa gert á síðustu nokkrum árum.

Ég vil um leið hvetja sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sem hafa stöðugt það verkefni að tryggja nægjanlegt lóðaframboð til að setjast nú niður, hér á höfuðborgarsvæðinu sérstaklega, og ræða hvort ekki sé rétt og skynsamlegt á þessum tímapunkti að taka upp svæðisskipulagið, taka það til endurskoðunar með skynsamlegum hætti án þess að við séum að fara að þenja okkur mjög mikið út. Það væri hægt að setjast niður og segja: Heyrðu, við ætlum að fá að taka þátt í þessu verkefni en við ætlum, samhliða því að fá að brjóta nýtt land, að skuldbinda okkur til að þétta byggð um X mikið á móti. Með þeim hætti held ég að við værum að tryggja að það væri engin kollvörpun heldur skynsamleg endurskoðun til að geta tryggt það að markmið um 35.000 íbúðir á næstu tíu árum náist.