154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

skipulagslög.

183. mál
[16:52]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og spurninguna. Það sem ég á við með að endurskoða svæðisskipulagið, vegna þess að það er alveg rétt að það eru þenslumörk, mörk á því hvað sveitarfélögin geta þanið sig mikið út, er að það eru sveitarfélög eins og Reykjavík og Mosfellsbær sem eiga eitthvað af landi en önnur sveitarfélög eins og Hafnarfjörður, Kópavogur og Garðabær eiga lítið eftir og þau hafa í raun og veru ekkert nýtt land til að brjóta en vilja samt sem áður taka þátt í þessari uppbyggingu sem nauðsynleg er til næstu ára.

Ég get bara nefnt Hafnarfjörð, af því að það þekki ég nú best, við erum að klára 1.900 íbúðir — og ég segi við, við Hafnfirðingar — sem eru í byggingu í Hamranesinu sem er nýjasta hverfi Hafnfirðinga. Þar eftir eigum við Ásland 4 sem er rétt fyrir ofan og hverfi sem kallað er Vatnshlíðin sem er í nálægð við Hvaleyrarvatn og Kaldársel. Þessi lönd, sem eru byggingarlönd og inni á aðalskipulagi og innan svæðisskipulags, eru undir línu; Lyklafellslínu og Hamraneslínu, og það verður ekkert hægt að byggja á þeim á næstu árum. Þannig að Hafnarfjörður er uppiskroppa með land fyrir utan þéttingarreiti. Stærsti þéttingarreiturinn í Hafnarfirði, ég ætla að leyfa mér að segja það, er kallaður Hraun vestur. Þar var samþykkt deiliskipulag árið 2019 og það er ekki komin ein grafa. (BHar: Tíu mínútna hverfi?) Fimm mínútna hverfi. En það er ekki komin ein grafa. Það er vegna þess að þarna er atvinnuhúsnæði, þarna er atvinnustarfsemi í dag sem þarf þá að fara eitthvert annað. Það þarf að kaupa upp, það þarf að brjóta niður og byggja og þetta tekur bara tíma, miklu lengri tíma en það tekur að brjóta nýtt land. En þetta verður samt sem áður að fara saman og ég er ekki að tala fyrir kollvörpun á svæðisskipulaginu heldur nauðsynlegri og skynsamlegri endurskoðun á svæðisskipulagi.