154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

skipulagslög.

183. mál
[16:54]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Frú forseti. Ég fagna framlagningu þessa máls. Eins og hæstv. ráðherra fór yfir snýst þetta um svokallað Carlsberg-ákvæði að danskri fyrirmynd sem hefur reynst vel þar. Reykjavíkurborg hefur lengi kallað eftir lagaákvæði í þessa veru og við í Samfylkingunni höfum talað fyrir þessu, að sveitarfélög hafi heimild til að gera kröfu um að allt að 25% af byggingarmagni, samkvæmt nýju deiliskipulagi, sé fyrir íbúðauppbyggingu á félagslegum forsendum, hvort sem um er að ræða almennar íbúðir samkvæmt lögum um almennar íbúðir eða hlutdeildarlán.

Nú eru raunar liðin fjögur ár síðan ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur lofaði löggjöf af þessu tagi við undirritun lífskjarasamnings. Það var því miður ekki efnt á samningstíma hans. Núna hefur loforðið verið endurnýtt í rammasamningi um húsnæðismál og það er vel. Samkvæmt aðgerðaáætlun var svo gert ráð fyrir frumvarpinu á síðasta löggjafarþingi en það náði ekki fram að ganga. Vonandi er hægt að klára þetta mál á þessu þingi. Ég vona raunar að þetta mál geti orðið að lögum fyrir jól og vona að hæstv. innviðaráðherra viti að hann á allan okkar stuðning við þetta mál.

Verktakafyrirtæki og hagsmunasamtök þeirra brugðust frekar harkalega við þessu frumvarpi og frumvarpsdrögunum þegar þau komu fram í samráðsgátt. Ég ætla að lesa upp úr umsögn sem barst frá stóru byggingarfyrirtæki, með leyfi forseta:

„Fjárfestingar félagsins í landsvæðum hafa byggst á að hér ríki áfram frjálsræði en ekki forsjárhyggja þess opinbera.“ — Og svo mótmælir fyrirtækið því harðlega að veitt verði lagaheimild til að skerða eignarrétt félagsins.

Ég vil nú bara nota tækifærið hér í þessari umræðu og brýna fyrir hæstv. ráðherra og þingheimi að láta ekki svona upphrópanir setja sig út af laginu, af því að löggjafinn hefur bara mjög rúmt svigrúm til að setja hér almennar reglur um nýtingu og ráðstöfun lands og annarra fasteigna í þágu almannahagsmuna og til að tryggja húsnæðisöryggi.

Það þarf auðvitað að virða eignarréttarákvæði stjórnarskrár en eins og bent er á í greinargerð þessa frumvarps er að finna almennar takmarkanir á eignarráðum t.d. í vatnalögum, náttúruverndarlögum, jarðalögum og skipulagslögum og að sama skapi eru sveitarstjórnum nú þegar fengnar mjög víðtækar heimildir til að skipuleggja land innan sinna staðarmarka og þá í raun óháð því hvort land er í eigu ríkis, sveitarfélags eða einkaaðila. Ég held að þetta frumvarp sé hið besta mál og feli ekki á nokkurn hátt í sér einhver stjórnarskrárbrot eða annað slíkt. Ég segi bara: Áfram með smjörið. Við skulum vinna þetta mál bæði hratt og vel.

Sama gildir um boðað frumvarp samkvæmt rammasamningi um húsnæðismál og aðgerðaáætlun hans um tímabindingu á uppbyggingarheimildum. Við skulum ekki leyfa Sjálfstæðisflokknum að eyðileggja þetta mál eins og gerðist t.d. með frumvarp um skráningu húsaleigusamninga. Það þóttu einhver ægileg inngrip að fara að skrá upplýsingar um húsaleigusamninga í gagnagrunn. Þá fannst sumum að stóri bróðir væri bara mættur á svæðið. Mér sýnist nú reyndar að sumu leyti þetta frumvarp fela í sér miklu meiri inngrip inn á hinn frjálsa markað. Það verður fróðlegt að sjá hvernig þetta þróast í meðförum þingsins. Eins og ég hef tekið fram á hæstv. innviðaráðherra stuðning okkar í Samfylkingunni við þetta mál.

Samhliða þessari löggjafarvinnu er auðvitað mikilvægt að það náist samningar milli ríkisins og fleiri sveitarfélaga á grunni rammasamningsins um húsnæðismál. Það væri fróðlegt að heyra frá ráðherra við tækifæri hvernig þeirri samningsgerð miðar. Eftir því sem ég best veit er einungis búið að semja við Reykjavík en vonandi eru fleiri samningar í farvatninu og vonandi reynast fleiri sveitarfélög reiðubúin að gangast undir sams konar skuldbindingar og Reykjavíkurborg hefur gert þegar kemur að útvegun lóða og óhagnaðardrifinni íbúðauppbyggingu. Ég held að þetta Carlsberg-ákvæði sem er hér verið að mæla fyrir geti þjónað sem mjög mikilvægt verkfæri, einmitt til að fylgja slíkum skuldbindingum eftir. Það styrkir í raun samningsstöðu sveitarfélaga þegar kemur að því að skipuleggja land. Áfram gakk.