154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

lyfjalög og lækningatæki.

224. mál
[17:19]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna og þetta mál sem ég tel mikilvægt og ég tel tímabært. Mér finnst mikilvægt að um leið og við erum að innleiða þessar reglugerðir sé líka verið að bregðast við skýrslu forsætisráðherra. Mér finnst mjög mikilvægt að við notum fyrsta mögulega tækifæri til þess að læra af þeirri reynslu sem við fengum í gegnum Covid-faraldurinn með því að skrá í rauntíma hvaða lyf eru tiltæk. Mér finnst bara alveg ágætlega gerð grein fyrir þessu í greinargerð með frumvarpinu en ég held að til framtíðar gæti verið gagnlegt að gera meira. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra einmitt í ljósi fenginnar reynslu af síðustu vikum og mánuðum og raunar kannski árum, varðandi það að einmitt sé skortur á lyfjum almennt, hvort hann sjái fyrir sér að það verði svo hægt að nota þetta áfram inn í framtíðina, ekki bara til að bregðast við einhverju sem er skilgreint sem bráðaógn heldur hreinlega til þess að tryggja að almennt séð sé jafnara og öruggara aðgengi að lyfjum sem ég held að við getum gefið okkur að læknar séu ekki ávísa að tilefnislausu.