154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

lyfjalög og lækningatæki.

224. mál
[17:21]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir þetta andsvar. Það er stór spurning sem hv. þingmaður setur hér fram. Við erum auðvitað að gera ítarlegar kröfur um upplýsingagjöf þeirra sem hafa með birgðir að gera í landinu og það í öryggisskyni. Það er það sem þetta snýr að. Það eru alltaf meiri líkur á að við getum brugðist við ef við erum með rauntímaupplýsingar um stöðuna. Til þess þarf að setja hér allítarlegt kerfi á fót, miðlægt upplýsingakerfi. Það er mikil breyting. Það er líka mikil krafa sem við gerum til allra sem halda lyfjabirgðir og birgðir lækningatækja að skrá í rauntíma og þar með talin undanþágulyfin. Lyfjastofnun hefur þannig aðgang að upplýsingakerfinu og getur þá fylgst með raunstöðu birgða á hverjum tíma og þá brugðist við.

Hér er kannski tilskipunin að horfa inn í aðstæður sem við þekkjum frá Covid þar sem er bráð ógn eða einhver atburður og þá kannski er allur heimurinn mögulega á höttunum eftir sömu framleiðslunni, eins og við þekkjum, þannig að það er erfitt kannski að fullyrða. En ég myndi alltaf segja: Það eru alla vega meiri líkur á því að við getum brugðist við. Nú erum við svolítið sérstaklega í sveit sett hér á Íslandi, t.d. þegar kemur að lyfjunum. Við erum með óvenjustóran hluta af lyfjum undir svokölluðum hatti undanþágulyfja, alveg um fjórðung af þeim lyfjum sem eru í boði á Íslandi, og ég myndi alltaf fyrir fram álykta að raunstaða þeirra birgða myndi alla vega hjálpa til.