154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

lyfjalög og lækningatæki.

224. mál
[17:24]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Mér heyrist að við sjáum þessi mál í frekar svipuðu ljósi. Ég er sammála því að það skiptir auðvitað máli að vita raunstöðuna til þess að geta á einhvern hátt aðhafst eitthvað frekar. Þá alla vega vitum við eitthvað um það hvað er til í landinu.

Ég ætla bara að leyfa mér að vona að velferðarnefnd gangi bara vel og hún geti fljótt og örugglega unnið að þessu máli sem ég held að sé bara brýnt. En mig langar líka að hvetja hæstv. ráðherra til að halda áfram að fylgjast með þessum málum og finna leiðir til þess að bæta úr því að fólk geti fengið þau lyf afgreidd sem það hefur fengið ávísað frá læknum og að sú staða komi ekki upp ítrekað að það þurfi að fara í einhvers konar kapphlaup á milli apóteka til að reyna að finna lyf sem virðast vera ill- eða ófáanleg á landinu og fólk jafnvel að keppast um sömu pakkningarnar. Því að þótt það séu kannski ekki í öllum tilfellum lyf sem eru skilgreind lífsnauðsynleg eru það engu að síður lyf sem ég held að við áttum okkur öll á að væri nú sjaldnast verið að ávísa nema vegna þess að þau bæta lífsgæði fólks allverulega og eru stundum til að ja, ef ekki bjarga mannslífum þá alla vega til að bæta þau. Það er bara partur af því að búa við almennilegt heilbrigðiskerfi að tryggja að hér sé alltaf aðgangur að nauðsynlegum lyfjum.