154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

225. mál
[18:05]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla nú bara að byrja á því að þakka hv. þingmanni andsvarið og þessa umræðu og fagna því að hv. þingmaður styðji þetta frumvarp. Það er aldrei hollt að standa hér í ræðustól og kannski greiða beinlínis atkvæði með einhverjum tilteknum frumvörpum en ég er alls ekki andvígur þessu máli. Þetta er jákvætt mál, umboðsmaður sjúklinga, og umboðsmaður alls konar hagsmunahópa, ef því er að skipta, er bara jákvætt mál. Því til staðfestingar, eins og ég fór yfir í fyrra andsvari, er það að við höfum lögfest hér notendaráð og erum að tilnefna í geðráð sem ég held að sé virkilega gott skref. Allur stuðningur við viðkvæma hópa er jákvæður. Við þekkjum alveg stofnanir eins og umboðsmann Alþingis og hversu mikilvægur hann er fyrir borgarana.

Ég ætla hins vegar aðeins að ræða þetta í samhengi við þetta frumvarp. Ég skil vel að þessi spurning komi hér upp um umboðsmann sjúklinga og umræðu í tengslum við þetta mál sem er afar mikilvægt og raunverulega búið að vera ákall um í allt of langan tíma að við klárum. Það var rætt í nefndinni sem undirbjó þetta frumvarp hvort það ætti að ganga lengra og setja á fót eitthvert óháð batterí, rannsóknarnefnd, ekkert ósvipað og rannsóknarnefnd samgönguslysa. En það hefði kannski verið of stórt skref samhliða því að stíga þetta skref, hlutlægu refsiábyrgðina, sem er kannski stóra málið í þessu, að við förum ekki bara strax af stað og séum neydd til að horfa á einstaklinginn. Það er kannski stóra skrefið í þessu og kannski erfitt að vera að blanda öllu öðru við. (Forseti hringir.) Það væri um sérstaka stefnubreytingu að ræða því að við erum með þetta í þessum farvegi með embætti landlæknis. (Forseti hringir.) Þess vegna held ég að það væri erfitt að taka það til skoðunar akkúrat, en í framhaldinu yrði það mikilvægt.