154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

tóbaksvarnir.

226. mál
[19:00]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Hildi Sverrisdóttur fyrir ræðuna þar sem hún fer yfir gagnrýnisatriði sem komið hafa fram varðandi þetta frumvarp í fyrri umfjöllun hér. Ég lít á þetta frumvarp sem mjög mikilvæga lýðheilsuaðgerð og það sem ég velti fyrir mér hér er. Hvernig getur þingmaðurinn fullyrt það að þó að í dag sé markaðssetning á sígarettum með mentólbragði ekki beitt gagnvart ungmennum — hvernig getum við verið viss um að það gerist ekki aftur? Fyrir 5–6 árum höfðum við hér fæst heyrt um nikótínpúða. Þeir eru núna ein af miklum heilsufarsógnum við börn og ungmenni, bæði þau sem neyta þeirra í rauninni óvart vegna þess að þeir liggja hér og þar og þau sem ánetjast í rauninni neyslunni og neyta þeirra daglega. Það er akkúrat það sem við höfum séð í tóbaksheiminum eins lengi og ég man eftir að um leið og einhvers staðar þrengir að er önnur opnun í lagaumhverfinu gripin, bæði vestan hafs og í Evrópu, og það höfum við ítrekað séð gerast. Þess vegna verð ég að viðurkenna að ég vil heyra rökin fyrir því hvernig þeir sem eru á móti því að takmarka notkun bragðefna í sígarettum geti verið vissir um að því verði ekki beitt í markaðssetningu gagnvart ungmennum.