154. löggjafarþing — 9. fundur,  26. sept. 2023.

tóbaksvarnir.

226. mál
[19:05]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir spurninguna. Ég skal hætta að elta ólar við fyrri part andsvarsins. Ég vil bara ítreka það að öll markaðssetning, ég tala nú ekki um gagnvart ungmennum, á hvers kyns tóbaksvörum er einfaldlega bönnuð og ef það eimir enn þá eftir í einhverri skynjun fólks, einhverjar eldri blaðagreinar, erlendar eða hvað það er, þá er það nú bara partur af raunveruleika sem við búum við og ætti kannski ekki að vera forsenda fyrir lagasetningu nú sem er til verndar börnum sem lásu þá ekki þær blaðagreinar.

Varðandi seinni spurninguna þá skal ég viðurkenna að ég skildi ekki alveg hvað þingmaðurinn átti við varðandi þetta hlutfall. Hlutfall á Íslandi er alltaf færra fólk en hlutfall í flestum öðrum löndum — (LínS: … íbúafjölda, fjölda fólks eftir íbúafjölda.) Já. Eins og ég skil ástæðurnar fyrir því að þetta er sett fram í rökstuðningi tilskipunarinnar, er að löggjafinn þar er í rauninni að bera virðingu fyrir því að þetta er íþyngjandi aðgerð og því fleiri sem verða fyrir íþyngjandi aðgerð því meira tillit verði að taka til þess. Þess vegna ítreka ég að þar sem við erum með langtum hærra hlutfall af mentólsígarettureykingamönnum en þvert á móti ekki að gefa neinn aðlögunartíma, ekki nokkurn, ég tala nú ekki um þegar við getum á svona hæpinn hátt rökstutt þetta bann við mentólsígarettunum gagnvart börnunum, þá verð ég að segja enn og aftur: Hér er allt of langt gengið.