154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

Störf þingsins.

[10:32]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegur forseti. Efni þessarar ræðu er ekki eitthvað sem ég er að segja í fyrsta sinn en í þetta skipti að hafa forsendurnar gjörbreyst fyrir þessa ræðu. Það er með mjög þungu hjarta sem ég kem upp í pontu og ræði bakslagið í hinsegin baráttunni, en ég vænti þess að flestöll séu meðvituð um atburði síðustu vikna og í raun mánaða. Við erum að sigla inn í nýjan veruleika sem ég hef aldrei upplifað áður, en orðræðan sem hefur kviknað og upplýsingaóreiðan sem ríkir er nákvæmlega sama orðræðan og var á níunda og tíunda áratugnum. Orðræðan ein og sér er ótrúlega stór og sorgleg afturför. Þegar fánar eru skornir niður, það er gelt og hrækt á fólk í gleðigöngunni og nú síðast alvarleg líkamsárás sem allar líkur eru á að hafi verið hatursglæpur, þurfum við að líta í eigin barm og spyrja okkur hvers vegna við sem sitjum hér á Alþingi höfum ekki gripið til aðgerða hingað til.

Í þessu samhengi er einnig nauðsynlegt að endurtaka sömu möntruna um tjáningarfrelsi en aðgerðir gegn haturstjáningu, sem getur t.d. verið í formi þessarar misvísandi orðræðu sem hefur verið að kynda undir hatur og ofbeldi gegn hinsegin fólki, er ekki aðför gegn tjáningarfrelsi fólks heldur er þetta réttlætanlegt inngrip í tjáningarfrelsi í því skyni að vernda réttindi annarra sem eiga undir högg að sækja. Hér ber að hafa í huga að við erum þegar með lög sem taka á hatursorðræðu og hatursglæpum en þeim er varla beitt í framkvæmd. Óheft tjáningarfrelsi hóps getur leitt til hefts tjáningarfrelsis viðkvæmra hópa. Þeir óttast að tjá sig og þannig vegur haturstjáning að tjáningarfrelsi þeirra. Þeir óttast að vera sýnilegir í samfélaginu og vegur haturstjáning þannig að athafnafrelsi þeirra.

Ég gæti haldið áfram en ég ætla að enda á sömu nótum og ég gerði síðast þegar ég flutti ræðu um haturstjáningu og aðgerðaleysi æðstu ráðamanna Íslands. Það er okkar hlutverk að tryggja að það séu lög og aðgerðir til staðar sem virka í framkvæmd, sem ná utan um hatur og aðför gegn viðkvæmustu hópum samfélagsins. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)