154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

Störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Brynhildur Björnsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Árið 1987, þegar ég var 17 ára, sagði besti vinur minn mér að hann væri hommi og hann hefði alveg eins getað sagt mér að hann væri geimvera. Svo framandi fannst mér að einhver sem ég þekkti gæti verið hinsegin. Ég gætti leyndarmálsins hans eins og sjáaldurs augna minna, vissi sem var að hann myndi mæta erfiðleikum og fordómum, jafnvel vera laminn á skólaballi ef upp um hann kæmist. Mér verður alltaf hugsað til þessa þegar ég sé vagninn frá Hinsegin félagsmiðstöðinni í gleðigöngunni, hversu mikið hefur breyst, hvernig óvild breyttist í umburðarlyndi sem breyttist í viðurkenningu og loks í kærleika, sem við sjáum einmitt að verki í gleðigöngunni þegar tugþúsundir koma saman og fagna fjölbreytileikanum. Verkinu er samt hvergi nærri lokið og þetta er ekki bara barátta hinsegin fólks heldur okkar allra. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur lagt mikla áherslu á réttindi hinsegin fólks sem sést til að mynda á löggjöf um kynrænt sjálfræði og jafna meðferð á vinnumarkaði og þingsályktun um aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks fyrir árin 2022–2025 sem var samþykkt á Alþingi í júní árið 2022. Öllum framförum fylgir bakslag og við finnum fyrir því, bæði á heimsvísu og hérlendis þar sem óvild, hatur og illkvittni gegn hinsegin fólki hefur færst í aukana. Í fyrrakvöld verður ekki betur séð en að hatrið hafi verið sýnt í verki. Ég tek undir með hv. þm. Lenyu Rún Taha Karim: Við verðum hér og alls staðar að taka skýra afstöðu gegn bakslaginu, gegn hatursorðræðu, því að dæmin sýna að hún getur verið fljót að snúast upp í enn verra og alvarlegra ofbeldi ef ekkert er að gert. Við verðum að þétta raðirnar enn frekar og sýna hinsegin fólkinu okkar hér og þar og alls staðar að við líðum ekki ofbeldi, hvorki í orði né á borðið.

Ég vil ljúka máli mínu með því að vitna í eitt þjóðskáld 21. aldarinnar, með leyfi forseta: Út með hatrið. Inn með ástina. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)